148. löggjafarþing — 61. fundur,  9. maí 2018.

um fundarstjórn.

[18:30]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Ég vil leggja það til við forseta að hann geri hlé á þessum fundi og kalli þingflokksformenn til sín til að fara yfir stöðuna á þessum þingfundi. Það er ekki góður bragur á því sem er að gerast hér. Það er verið að samþykkja lengdan þingfund vegna stjórnarfrumvarpa sem hafa komið allt of seint inn. Það er verið að henda hér inn breytingartillögum sem enginn hefur séð, í atkvæðagreiðslu einn tveir og tíu, án umræðu í nefnd eða í þingsal. Síðan eru nefndir með þingmannamál í frysti.

Ég held, forseti, að við verðum að setjast niður og fara yfir það hvernig við ætlum að halda áfram inn í kvöldið. Fyrst búið er að samþykkja að halda áfram þessum þingfundi verðum við að finna út úr því hvernig við ætlum að lenda þeim málum sem hér eru á dagskrá.