148. löggjafarþing — 62. fundur,  28. maí 2018.

svar við fyrirspurn.

[15:18]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Svo eitthvert jafnvægi sé í umræðunni vil ég taka undir það með forsætisráðherra að líklega höfum við aldrei í sögunni fengið jafn margar fyrirspurnir frá þinginu til Stjórnarráðsins og nú. Ég ætla jafnframt að lýsa þeirri skoðun minni að líklega höfum við aldrei fengið jafn margar, viðamiklar og nákvæmar fyrirspurnir og nú á við. Ég nefni sem dæmi af hendingu fyrirspurn frá hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni, sem mér sýnist að sé við það að slá met í framlagningu fyrirspurna, um störf þingmanna á vegum framkvæmdarvaldsins. Spurt er tíu ár aftur í tímann um alla þingmenn sem setið hafa á Alþingi, um allar nefndir sem þeir hafa setið í, hvaða afurð hafi komið út úr öllum þeim nefndum allra þingmanna sl. tíu ár. Hvernig greiðslum til þeirra hafa verið háttað, hvað ætla megi að þingmenn hafi lagt mikla vinnu í tímum talið fyrir hverja einustu nefnd tíu ár aftur í tímann. Er einhver hér í salnum sammála mér um að þetta sé komið út í tóma þvælu?