148. löggjafarþing — 62. fundur,  28. maí 2018.

úttekt nefndar á barnaverndarmálum.

[15:39]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Hv. þingmaður spyr hvort ég hafi verið óheiðarleg í framsetningu á því hvernig staðið er að úttekt á málum barnaverndar í kjölfar umfjöllunar í fjölmiðlum um þau mál. Ég svara því neitandi. Ég var ekki óheiðarleg í þeirri framsetningu og finnst furðulegt af hv. þingmanni að nálgast það þannig.

Staðreyndir málsins eru þær að ég kallaði til þá sérfræðinga sem hér um ræðir, Kjartan Bjarna Björgvinsson héraðsdómara og Kristínu Benediktsdóttur dósent, og óskaði eftir því að þau myndu framkvæma þessa úttekt. Ég lagði fram minnisblað í ríkisstjórn um það mál þar sem ríkisstjórninni var tilkynnt um þetta. Í því minnisblaði var sömuleiðis farið yfir hver verkefni þessara sérfræðinga væru.

Í svari mínu við fyrirspurn hv. þingmanns, ef ég man rétt, kom líka fram að verkefnið væri ekki unnið samkvæmt lögum um rannsóknarnefndir, heldur samkvæmt lögum um Stjórnarráðið. Verkefnið er að fara yfir málsmeðferð stjórnvalda í þeim málum sem voru til umfjöllunar, þ.e. Barnaverndarstofu, barnaverndarnefnda og velferðarráðuneytis. Hins vegar þarf samkvæmt stjórnarráðslögum greiðsla þessa máls sem verður greidd af ráðstöfunarfé ríkisstjórnar að fara í gegnum velferðarráðuneytið og því er verksamningur gerður við það.

Það er ekkert í þessari málsmeðferð sem dregur úr því að þeir sérfræðingar sem ég fékk til starfans, eins og kom fram í svari mínu við fyrirspurn hv. þingmanns, geti sinnt af heilindum því verkefni sem þeim var falið. Úttektinni verður skilað til ríkisstjórnarinnar. Í þessu sama minnisblaði kom fram að niðurstaðan yrði líka birt opinberlega þegar hún lægi fyrir. Hv. þingmaður þarf því ekki að hafa neinar áhyggjur af óheiðarleika í þessu máli.