148. löggjafarþing — 62. fundur,  28. maí 2018.

stjórnsýsla ferðamála.

[15:48]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Mér finnst þetta áhugaverðar hugmyndir um ráðherranefnd. En vandinn er til staðar. Það eru æ fleiri merki um kulnun í ferðaþjónustunni. Styrking krónunnar er að skila sér í því að hver ferðamaður skilar nú færri krónum og hefur samkeppnishæfni Íslands í ferðaþjónustu hreinlega minnkað samkvæmt upplýsingum frá World Economic Forum. Eins og hæstv. ráðherra kom inn á liggja nú frammi tvö frumvörp sem tengjast skipan ferðamála en þau virðast því miður ekki hjálpa til.

Í frumvarpi til laga um Ferðamálastofu skortir verulega á sýn á hlutverk stofnunarinnar og mikið er kvartað undan samráðsleysi. Þá hefur frumvarp til laga um breytingu á lögum um Íslandsstofu verið harðlega gagnrýnt og gefa til að mynda bæði Ríkisendurskoðun og Samkeppniseftirlitið frumvarpinu falleinkunn.

Herra forseti. Ég kemst ekki hjá því að hugsa hvort með þessum frumvörpum sé ekki enn og aftur verið að reyna að slá því á frest að byggja almennilega upp stjórnsýslu ferðaþjónustunnar. Er það virkilega pólitík Sjálfstæðisflokksins að firra sig ábyrgð á málaflokknum? Er það það sem hæstv. ráðherra vill? (Forseti hringir.) Hún verður að sýna fram á hvernig hún ætlar að gera þetta (Forseti hringir.) en það kemur því miður ekki fram í þessum frumvörpum og það hefur mikil áhrif á þessa stærstu atvinnugrein landsins.