148. löggjafarþing — 63. fundur,  29. maí 2018.

Störf þingsins.

[13:47]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Fyrr á árinu var ég hér í sérstakri umræðu um fátækt. Það voru alveg ævintýralega góðar undirtektir sem við fengum við því umræðuefni. Meira að segja tóku allir sig til, hvar í flokki sem þeir stóðu, og heimsóttu Öryrkjabandalagið. Þeir fóru út um alla borg og allar koppagrundir til að sjá hvernig fátækt fólk í Reykjavík hefði það í raun og veru. Hér voru gefin fögur fyrirheit ekki síður en fyrir hverjar einustu kosningar þegar lofað er bót og betrun og selja á almenningi loforð.

En hver er hin raunverulega staða í dag? Tugþúsundir Íslendinga draga fram lífið og hafa lífsviðurværi sitt af handónýtu almannatryggingakerfi. Hvað er verið að gera í því að laga kerfið annað en að koma hér upp í pontu til að réttlæta það og segja: Við erum í samtali, það er búið að skipa starfshóp, skipa nefnd? Breytir það stöðunni fyrir þá sem þurfa að nýta sér framfærslu þessa kerfis yfir höfuð? Svarið er nei. Það breytir henni alls ekki neitt.

Taka má dæmi um einstakling sem orðið hefur fyrir því óláni að þurfa að fara á svokallaðan endurhæfingarlífeyri. En hvað gerist þegar kemur að því að viðurkennt er að hann hafi ekki heilsu til að fara út á vinnumarkaðinn og sækja á um örorku fyrir hann, örorkubætur eins og það kallast nú? Hann lendir í tómarúmi. Hann dettur bara niður, hann fær hvergi eina einustu krónu.

Okkar ágætu vinir í Sjálfstæðisflokknum, sem komu hér upp á eftir mér þegar ég var að ræða um fátækt, sögðu þegar þeir voru að heimsækja Öryrkjabandalagið: Það má ekki bíða að bæta kjör þessa hóps, bæta kjör þeirra sem höllustum fæti standa. Við verðum að gera þetta fyrir vorið, fyrir þinglok. En nú er þinginu að ljúka og hvar eru umbæturnar?