148. löggjafarþing — 63. fundur,  29. maí 2018.

jöfnuður og traust.

[14:36]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa þörfu umræðu. Við vitum að í gegnum tíðina hafa ríkisvaldið, sveitarfélög og verkalýðshreyfingin byggt upp velferðarkerfi í landinu. Það er gott að mörgu leyti en við getum gert miklu betur. Oftar en ekki hefur velferðarkerfið verið lagað og byggt enn frekar upp með stuðningi verkalýðshreyfingarinnar. Hún á stóran þátt í því að við höfum þó það velferðarkerfi sem við höfum í dag og þess vegna er mjög eðlilegt að ríki og stjórnvöld hverju sinni vinni það með verkalýðshreyfingunni hvar helst er hægt að byggja upp og efla velferðarkerfið til að auka jöfnuð í landinu. Margar mestu framfarir hafa einmitt verið þegar verkalýðshreyfingin hefur komið að málum með ríkisvaldi og sveitarfélögum.

En við getum gert miklu betur og ójöfnuður er óásættanlegur. Hér í þessum þingsal vilja allir auka jöfnuð og við þurfum öll að taka það til okkar og ekki vera að yfirbjóða hvert annað, hverjir sem eru í meiri hluta hverju sinni. Við eigum að gera betur og í þeirri fjármálaáætlun sem nú liggur fyrir er verið að taka á ójöfnuði og auka fjármuni til velferðarmála. Það er mjög gott og við þurfum að fylgja því fast eftir í fjárlögum hverju sinni að gera betur.

Hér kom fram í ræðu hæstv. fjármálaráðherra í gær að laun í landinu ættu ekki að vera það lág að þau bæru ekki skatta. Veruleikinn er samt sá að 300 þús. kr. laun, lágmarkslaun í landinu í dag, bera ekki skatta. Við þurfum bara að horfast í augu við það. Framfærsluviðmið velferðarráðuneytisins eru þó nokkuð miklu hærri. Þetta er verkefni sem er okkar allra því að það er smán á hverju samfélagi (Forseti hringir.) að það sé ójöfnuður og fátækt og við eigum öll saman að gera betur. Við getum það.