148. löggjafarþing — 63. fundur,  29. maí 2018.

Jöfnuður og traust.

[14:41]
Horfa

Óli Björn Kárason (S):

Frú forseti. Það kemur kannski ekki á óvart að ég vilji nálgast viðfangsefnið með örlítið öðrum hætti og frá öðrum sjónarhóli en hv. málshefjandi, Oddný G. Harðardóttir. Það er hægt að tala um að auka jöfnuð með því að slá niður þá sem hafa kannski meira en aðrir. Það er líka hægt að beina athyglinni að því hvernig við lyftum upp þeim sem minnst hafa, hvernig við fjölgum þeim tækifærum sem eru fyrir hendi. Þannig vil ég ræða viðfangsefnið, hvernig við aukum jöfnuð í samfélaginu og hvernig við bætum lífskjör allra. Það er hægt, það er mín trú. Besta jöfnunartækið í mínum huga liggur ekki í gegnum flókið millifærslukerfi ríkissjóðs, það liggur í gegnum menntakerfið. Það er með öflugu menntakerfi, ekki bara á sviði bóknáms heldur ekki síst á sviði verknáms og tækni, sem við munum til lengri tíma, til frambúðar, auka jöfnuð í íslensku samfélagi. En auðvitað þurfum við að huga að því að hafa öflugt almannatryggingakerfi til að tryggja að bræður okkar og systur sem þurfa á aðstoð að halda geti lifað mannsæmandi lífi. Ríkisstjórnin hefur það einmitt á dagskrá að endurbæta tryggingakerfi öryrkja sem ég hef lengi talað fyrir að verði gert enda tel ég að það sé okkur til vansa sem hér erum að hafa ekki gert það nú þegar.

(Forseti hringir.)Svo ætla ég að minna á að í þeirri fjármálaáætlun sem nú er til umfjöllunar er einmitt (Forseti hringir.) talað um að breyta hugsanlega tekjuskattskerfinu og huga að samspili tekjuskattskerfisins og bótakerfisins.