148. löggjafarþing — 65. fundur,  31. maí 2018.

dagskrá fundarins.

[10:39]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Með leyfi:

„Áhugaverður dagur í þinginu. Á lokasprettinum er samkomulag um þinglok sett í uppnám með tilhögun meiri hluta atvinnuveganefndar um að gefa enn í varðandi gjafir til útgerðarinnar. Á einum degi, án röksemda, án útreikninga, án skýringa á að fella niður veiðigjald á kolmunna sem nemur 459 millj. kr. Stjórnarmeirihlutinn sendir sprengju inn í viðkvæma stöðu. — Enn er málið óleyst.“

Þetta er færsla frá Svandísi Svavarsdóttur, hæstv. ráðherra, frá 4. júlí 2013. [Hlátur í þingsal.] Ég tek hjartanlega undir með ráðherra. Hér erum við að horfa upp á það að það á lauma á síðustu metrunum í gegn afturvirkri lækkun, um 2,7 milljarða kr., sem myndi nægja til að hækka barnabætur um 30%. Þeir gætu líka notast til að bæta kjör öryrkja eða veitt betri húsnæðisstuðning fyrir barnafjölskyldur í landinu.

Ríkisstjórnin er með þessu að sýna hvert hennar hlutverk átti að verða og það er að koma á daginn. Alveg sama þó að hæstv. forseti haldi því fram og sé með réttu með dagskrárvaldið munum við ekki þola þetta. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)