148. löggjafarþing — 65. fundur,  31. maí 2018.

dagskrá fundarins.

[11:11]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Hæstv. forseti. Yfirskrift stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur, um eflingu Alþingis, er orðin að háðungarstimpli fyrir þá ríkisstjórn. Í góðsemd myndi ég ráðleggja þessari ríkisstjórn, sem nú hefur farið þvert gegn þessari fyrirætlan sinni á fyrstu vikum þingsins, að taka þennan stjórnarsáttmála upp og þurrka þessa meiningarlausu yfirskrift út úr sáttmálanum.

Mig langar líka að leita ásjár forseta og langar að spyrja hann, t.d. í tilefni að 9. dagskrárlið þessa dags í dag: Hvar á dagskrá er mál þingflokksins um að húsnæðisliður fari út úr vísitölu? Það mál er í nefnd. Ég veit ekki annað en það sé tilbúið, að hægt sé að taka það út. Þingsályktunartillaga Miðflokksins, um staðarvalsgreiningu fyrir nýtt (Forseti hringir.) þjóðarsjúkrahús, hvar þetta statt, herra forseti?

Ég minni (Forseti hringir.) forseta á að hann er forseti okkar allra, eða á að vera. Ég bið hann um að láta okkur, sem studdum hann til þessar vegtyllu, ekki sjá eftir því.