148. löggjafarþing — 65. fundur,  31. maí 2018.

dagskrá fundarins.

[11:24]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Herra forseti. Þegar komið er undir lok þings reynir á lipurð, lagni, framsýni og umburðarlyndi forseta þingsins, að hann verði lausnamiðaður, verði forseti alls þingsins. Þetta er fyrsti prófsteinninn hjá nýrri ríkisstjórn. Ég verð að segja að mér finnst hæstv. forseti ekki byrja vel þessa vegferð í átt að sátt á þingi. Það er verið að breyta þinghefðum og reglum og þess vegna held ég til að mynda að fyrirspurn hv. þm. Björns Leví Gunnarssonar um óskráðar reglur og hefðir á þinginu sé mjög tímabær. Þetta kemur mjög á óvart, hvernig er verið að vinna hér og setja fram dagskrármál. Stórpólitískt mál, lækkun veiðigjalda, forgangur ríkisstjórnarinnar, er sett á dagskrá, knúið fram með töngum og tekið út úr atvinnuveganefnd í gær. Þetta þarf að ræða. Það er alveg ljóst að ríkisstjórnin er að forgangsraða máli (Forseti hringir.) í þágu útgerðarinnar í þá veru að lækka veiðigjöld um allt að 3 milljarða. (Forseti hringir.) Það er forgangsröðun ríkisstjórnarinnar. Gott og vel, það er ágætt að fá það fram. (Forseti hringir.) En það sem ég hef mestar áhyggjur af eru hefðir og reglur hér á þingi og ég hvet hæstv. forseta til að setjast sem fyrst niður, (Forseti hringir.) gera hlé núna á þingstörfum og setjast niður með þingflokksformönnum til að koma skikki á þingið.