148. löggjafarþing — 65. fundur,  31. maí 2018.

dagskrá fundarins.

[11:34]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (Flf):

Virðulegi forseti. Ég ræddi hérna áðan um ákallið sem þingheimur hlustar sannarlega á. Við höfum heyrt það í vetur í þinginu hvaðan þetta ákall hefur komið. Það hefur verið stanslaus umræða um ýmis þjóðþrifamál varðandi stöðu öryrkja og aldraðra, láglaunafólks, heilbrigðiskerfisins og skólakerfisins o.s.frv., eins og ég nefndi áðan. Við þekkjum líka það sem útgerðin hefur verið að kalla eftir, þ.e. lækkun veiðigjalda, en var það mikilvægasta málið, var það brýnasta málið sem bar að taka fyrir rétt fyrir þinglok og alveg í lokin? Hvers vegna var þetta mál ekki löngu komið fram?

Formaður atvinnuveganefndar viðurkenndi það áðan að það væri seint fram komið og nefndin hefði slugsað í þessu máli. Ég spyr bara: Af hverju í ósköpunum kom þetta mál ekki fyrr inn fyrst það var svona brýnt? Við eigum sem sagt að samþykkja þetta mál, brýnasta málið, á einhverjum ofurhraða. (Forseti hringir.) Þetta var ekki brýnasta málið.