148. löggjafarþing — 65. fundur,  31. maí 2018.

skortur á hjúkrunarfræðingum.

[11:43]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Það er alvarlegur skortur á hjúkrunarfræðingum á Íslandi. Þetta sýnir fjöldi kannana um stöðu mönnunar í hjúkrun. Samkvæmt greiningu á vinnumarkaði hjúkrunarfræðinga starfa um 1.000 hjúkrunarfræðingar við annað en hjúkrun. Mikill meiri hluti hjúkrunarfræðinga, eða 98%, eru konur og starfa um 94% þeirra á opinberum vinnumarkaði. Um 13% hjúkrunarfræðinga geta hafið töku lífeyris á næstu árum. Niðurstaða könnunar á vegum Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga á mönnun í hjúkrun í heilbrigðisstofnunum á Íslandi sýnir að 290 hjúkrunarfræðinga vantar nú til starfa til að manna fjármögnuð stöðugildi hjúkrunarfræðinga. Spá um mönnun í hjúkrun á árunum 2017–2021 sýnir að vanta mun um 420 hjúkrunarfræðinga til starfa á næstu árum þar sem nýliðun í hjúkrun mun rétt halda í við þann fjölda sem hefur töku lífeyris á næstu árum.

Það sem ég vil ræða hér við hæstv. heilbrigðisráðherra er hinn alvarlegi skortur á hjúkrunarfræðingum á Íslandi. Einnig vil ég ræða í því sambandi ástandið sem fram undan er í sumar í heilbrigðiskerfinu vegna skorts á hjúkrunarfræðingum, en þeir þurfa að taka sumarfrí eins og aðrir enda álagið mikið.

Ég hef haft spurnir af því að mjög margir hjúkrunarfræðingar kvíði sumri vegna þessa. Auk þessa eru sumarlokanir víða fram undan vegna skorts á hjúkrunarfræðingum. Hjartagáttin á Landspítalanum verður lokuð í einn mánuð vegna þess að ekki fást hjúkrunarfræðingar til starfa. Fleiri lokanir hafa verið boðaðar. Ástandið á bráðamóttökunni er verulegt áhyggjuefni. Ekkert hefur verið gert til að bregðast við þeirri aukningu sem fylgir fjölda erlendra ferðamanna sem þangað leita, enginn aukning á mannafla. Það er með öllu óásættanlegt.

Ég vil því spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra: Hvað hyggst ráðherra gera til þess að bregðast við alvarlegum skorti á hjúkrunarfræðingum?