148. löggjafarþing — 65. fundur,  31. maí 2018.

skortur á hjúkrunarfræðingum.

[11:48]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Eins og ég nefndi áðan er stór þáttur í þessu sá að um það bil 1.000 hjúkrunarfræðingar starfa ekki við hjúkrun. Við þurfum að ná því ágæta starfsfólki inn í heilbrigðisgeirann að nýju.

Ef við skoðum aðeins launamálin eru algengustu byrjunarlaun hjúkrunarfræðinga um 359.000 kr. fyrir fullt starf. Meðaltalsdagvinnulaun hjúkrunarfræðinga eru um 526.000 kr. fyrir fullt starf. Launamunur á hjúkrunarfræðingum og öðrum stéttum með sambærilega menntun og ábyrgð í starfi hjá hinu opinbera er um 20%. Þegar dagvinnulaun hjúkrunarfræðinga og lækna eru borin saman er launamunurinn um 98%.

Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga leggur til að brugðist verði við skorti á hjúkrunarfræðingum með því að veita meira fé til menntunar hjúkrunarfræðinga og hækka laun þeirra til samræmis við aðra opinbera starfsmenn.

Herra forseti. Það verður að bregðast við þessum alvarlega vanda strax. Þar skipta launamálin að sjálfsögðu miklu máli. Það verður að reyna að fá þennan hóp aftur inn í þessa mikilvægu stétt.