148. löggjafarþing — 65. fundur,  31. maí 2018.

stytting náms til stúdentsprófs og staða nemenda.

[12:05]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Forseti. Það hefur ekki farið fram hjá neinum í umræðu um áhrif af styttingu náms til stúdentsprófs að sú breyting virðist hafa haft umtalsverð áhrif á stöðu nemenda eins og kannski við var að búast. Það hafa borist af því fregnir núna í vetur að álag á nemendur hafi aukist verulega, þátttaka í félagslífi hafi minnkað til mikilla muna, ásókn nemenda í einhvers konar sálfræðiaðstoð hafi aukist til muna og almennt ýmsar vísbendingar á lofti um að líðan nemenda hafi hrakað verulega við þessa breytingu.

Sjálfur hef ég verið stuðningsmaður þessarar styttingar, en það er auðvitað gríðarlega mikilvægt hvernig að henni er staðið. Því virðast ýmis teikn á lofti núna um að hér hafi ekki verið nægilega vel vandað til verks. Því langar mig að spyrja hæstv. menntamálaráðherra:

Hefur ráðuneytið látið vinna einhvers konar greiningu á líðan nemenda og hver þróunin hefur verið frá því námið var stytt? Hefur ráðuneytið látið vinna einhverja greiningu á áhrifum styttingar á brottfall nemenda úr námi og áhrifum á þróun einkunna í hinu stytta stúdentsnámi? Er í gangi hjá ráðuneytinu einhver vinna sem snýr að nauðsyn þess að endurskoða í raun og veru námskrá frá grunnskóla í gegnum menntaskóla þannig að álagi af styttingu námstíma verði dreift á öll árin en ekki aðeins þau þrjú sem hér um ræðir á framhaldsskólastiginu?

Að lokum: Er ráðherra tilbúinn að skoða þær hugmyndir sem m.a. voru ræddar þegar þessi breyting tók gildi að veita menntaskólum aukinn sveigjanleika, t.d. að taka við nemendum fyrr, jafnvel strax eftir 9. bekk, og bjóða þá áfram upp á fjögurra ára nám á menntaskólastigi?