148. löggjafarþing — 65. fundur,  31. maí 2018.

biðlistar á Vog.

[13:05]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka kærlega fyrir þessa þörfu umræðu. Ég þakka hv. þm. Sigurði Páli Jónssyni kærlega fyrir að vekja máls á bæði stöðu SÁÁ en ekki síður stöðu meðferðarmála á Íslandi og stöðu ungra fíkla. Ég tel að við þurfum að taka á málinu af mikilli festu. Ég fagna svörum hæstv. heilbrigðisráðherra varðandi það að í bígerð sé að halda vinnustofu um mál ungra fíkla á Íslandi.

Mig langar jafnframt að hvetja hæstv. heilbrigðisráðherra til þess að taka hugmyndina aðeins lengra og jafnvel bregðast við þeim mikla vanda sem nú ríkir, sérstaklega í málum ungra fíkla. Eins og sá þingmaður sem hér stendur kom inn á í umræðu fyrir um mánuði ríkir algjört neyðarástand. 20 sinnum á þessu ári hefur það gerst að ungmenni undir 18 ára hefur verið vísað frá neyðarvistun á BUGL. Þeir sem þangað leita eru í algjörri lífskrísu. Þegar á að fara í neyðarvistun er um það að ræða að ekkert annað úrræði er tækt. 20 sinnum hefur þurft að vísa ungmennum frá, bara á þessu ári. Það er algjörlega ólíðandi ástand í okkar góða samfélagi.

Aldrei höfðu fleiri beðið eftir plássi á Vogi í janúar, 570, en fyrir mánuði var tilkynnt af SÁÁ að þau hygðust loka ungmennadeild fyrir undir 18 ára eftir að upp komst um kynferðisbrot sem átt hafði sér stað gegn barni sem dvaldi á Vogi. Það þarf auðvitað að gera betur en að halda bara vinnustofu, við þurfum að taka á þessu máli mál af festu og ég hvet hæstv. ráðherra til að fara strax í það.