148. löggjafarþing — 65. fundur,  31. maí 2018.

frumvarp um veiðigjöld.

[14:45]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Við ræðum hér það sem ég held að óhætt sé að kalla grímulausa hagsmunagæslu ríkisstjórnarinnar, en um það er að ræða þó að beitt hafi verið ýmsum ráðum til að dulbúa það. Sumir í þessum sal eru hissa, aðrir ekki og örugglega enginn eftir þennan dag.

Mig langar að ræða aðeins um störf þingsins. Fyrir liggur að ýmsir stjórnarþingmenn, hæstv. ráðherrar og formenn stjórnarflokka hafa staðið hér í ræðustól og hent gaman að og hæðst að fyrirspurnum þingmanna stjórnarandstöðunnar vegna hinna ýmsu mála. Ég held að fátt sé mikilvægara nú í framhaldinu, er varðar virðingu þingsins, en að fyrirspurn hv. þm. Björns Levís Gunnarssonar verði svarað. Henni er beint til forseta og hún hljóðar svo:

„Hvaða óskráðu reglur og hefðir gilda um störf þingsins?“

Ég held einlæglega að fátt skipti meira máli fyrir virðingu þingsins eftir þennan svarta dag en að fá (Forseti hringir.) heiðarlegt svar við þessari spurningu, treysti hæstv. forseti sér til þess.