148. löggjafarþing — 65. fundur,  31. maí 2018.

frumvarp um veiðigjöld.

[15:01]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Það er mikilvægt að halda því til haga sem hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson kom inn á áðan að rökstuðningurinn sem kemur fram í því máli sem nú á að drífa hér í gegn snýr ekki að þeim vandamálum sem við landsbyggðarþingmenn höfum stöðugt heyrt af undanfarin misseri, eða í mínu tilviki síðan ég kom inn á þing, að litlar og meðalstórar útgerðir, sérstaklega úti á landi, eru í verulegum vandræðum. Ég held að hægt sé að segja að ástandið sé að jafnaði verst á Snæfellsnesi og Vestfjörðum. Eins og fram kom hjá hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni tæpir rökstuðningurinn fyrir þessum breytingum ekkert á þessu. Þetta eru einmitt atriðin sem maður hefði viljað ræða í „díteil“ á fyrri stigum málsins, í tæka tíð, ef hæstv. ríkisstjórn hefði með einhverjum hætti getað komið sér saman um nálgun í málinu. (Forseti hringir.) En í staðinn er okkur boðið upp á þessa lausn.