148. löggjafarþing — 65. fundur,  31. maí 2018.

lengd þingfundar.

[15:42]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég ætla ekki að ræða þetta stórpólitíska forgangsmál ríkisstjórnar Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs um að troða inn í þingið á síðustu metrunum stórlækkuðum álögum á útgerðina. Ég ætla ekki að ræða það, það gerum við síðar. Ég hef alla jafna talið mjög eðlilegt af bæði stjórn og stjórnarandstöðu að greiða fyrir því þegar beðið er um lengingu á þingfundi undir lok hvers þings. En þegar samkomulag sem gert var núna fyrir þinghlé er ekki virt, og beinlínis virt að vettugi, nýtt fyrirkomulag er keyrt í gegn, ný dagskrá, að mínu mati beinlínis með ofbeldi, þegar farið er yfir stjórnarandstöðuna eins og hæstv. forseti og ríkisstjórnin eru að gera, kallast það frekja. Það kallast yfirgangur en fyrst og síðast kallast það svik, svik á svik ofan. Fyrir þetta stendur ríkisstjórnin. Þetta eru hin (Forseti hringir.) svokölluðu nýju vinnubrögð. Nema ríkisstjórnin fari að sýna betur á spilin og segja hvað hún meinar raunverulega með einhverju innantómu hjali um að auka virðingu þingsins í ríkisstjórnarsáttmála þá verður ekki betur séð en að þetta séu nýju vinnubrögðin og þau eru til vansa.