148. löggjafarþing — 65. fundur,  31. maí 2018.

lengd þingfundar.

[15:52]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Ég vil fá að benda á það að það er verið að vinna þetta allt í öfugri röð í dag. Mér finnst það með miklum ólíkindum að forseti hafi ekki gert hlé á fundi til þess að kalla saman þingflokksformenn til að sjá hvort einhver flötur er á því að færa mál til haganlegri vegar. Það var fundur með þingflokksformönnum ef ég skildi rétt í hádeginu eða upp úr hádegi. Þar hafa menn væntanlega skipst á skoðunum en viðbrögðin eru jafn lítil og þau hafa verið frá virðulegum forseta hingað til í þessari umræðu, fyrst um fundarstjórn, nú um atkvæðagreiðsluna. Því vil ég aftur spyrja: Kemur til greina að gera hlé á fundi og kalla þingflokksformenn til skrafs og ráðagerða? Því það lítur ekki vel út með störfin í dag, svo vægt sé til orða tekið.