148. löggjafarþing — 65. fundur,  31. maí 2018.

lengd þingfundar.

[16:09]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Guðmundur Andri Thorsson sagðist líða eins og laxi sem væri verið að þreyta, en svo sagði hann að hann væri ekki lax. Mér líður eins og þorski sem á að fara að blóðga, en ég er samt ekki þorskur. [Hlátur í þingsal.] Ég hef oft verið á sjó og mikið verið á sjó. Það var einu sinni á netavertíð að við vorum búnir að vaka lengi, þá voru einhverjir orðnir syfjaðir. Þá segir einn gamall og góður: „Það er nú ekki mikið mál að vaka eina vetrarvertíð, það eru bara aumingjar sem geta það ekki.“

Ég er alveg til í að vinna mikið og vaka lengi og vinna að góðum málum, en ég get ekki samþykkt að taka þátt í kvöldfundi í kvöld með, ég segi bara ónýt veiðarfæri, með svikin loforð. Ég vil að hæstv. forseti standi við þau loforð sem gefin voru fyrir þinghlé. Þá er ég til í tuskið.