148. löggjafarþing — 65. fundur,  31. maí 2018.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á XI. viðauka og bókun 37 við EES-samninginn.

612. mál
[17:46]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður spurði sérstaklega um þann tíma sem ég teldi að þingið þyrfti til að afgreiða þetta. Ég svaraði því með vísan til þeirrar miklu umfjöllunar sem þingið hefur veitt málinu í gegnum árin, allt frá árinu 2012, það hefur margfjallað um það. (BLG: Nýtt þing, ný þingnefnd.) Ég nefni og árétta það sem ég sagði í framsögu minni, hvað ég hefði talið heppilegt, einkum og sér í lagi af því að ég heyri að hv. þingmaður spyr um efni reglugerðarinnar. Efni þessarar almennu persónuverndarreglugerðar var rætt í máli nr. 622 á þingfundi 29. maí sl. (BLG: Var rætt um málþóf, nú ókei.) og ég veit ekki betur en að hv. þingmaður hafi lagst gegn því að ræða þau tvö mál saman, sem hefði verið mjög upplýsandi og gefið gleggri mynd af efni reglugerðarinnar. En hér er til umfjöllunar þingsályktunartillaga sem utanríkismálanefnd þarf að taka tillit til, og hv. þingmaður spyr, af hverju? Ástæðan er augljós en ég veit ekki hvort hann kannast við að við séum skuldbundin við EES-samninginn, (Gripið fram í.) við höfum þar skyldum að gegna. Meðal annars liggur fyrir að Ísland á ekki annarra kosta völ en að taka upp hina almennu persónuverndarreglugerð Evrópusambandsins. (BLG: Ég spurði ekki um það.)Það liggur alveg fyrir. Það þarf að bæta henni við, taka hana upp í viðauka við EES-samninginn. Þetta er sú innleiðingaraðferð sem þarf að viðhafa í málinu. Það verður ekki gert öðruvísi en að utanríkismálanefnd og Alþingi taki málið til umfjöllunar svona, þ.e. afgreiði heimild til sameiginlegu EES-nefndarinnar að taka ákvörðun í málinu á þennan hátt, og svo í framhaldinu, eða samhliða í þessu tilviki, er landslögum breytt til að uppfylla (Forseti hringir.) þær skyldur sem þá leiða af EES-samningnum.