148. löggjafarþing — 65. fundur,  31. maí 2018.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á XI. viðauka og bókun 37 við EES-samninginn.

612. mál
[17:51]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ummæli mín um málsmeðferðina hér í þinginu skýrist kannski best þegar hlustað er á hv. þingmann sem kýs að ræða efni reglugerðarinnar, sem ég skil mætavel vegna þess að ég hefði talið mikilvægt að þingið ræddi efni reglugerðarinnar og velti upp ýmsum sjónarmiðum í þeim efnum. Málið sem er hins vegar hér til umfjöllunar er ekki reglugerðin heldur þingsályktunartillaga um upptöku tiltekinnar gerðar í EES-samninginn. Þess vegna nefndi ég það og vildi að það kæmi fram að ég hefði talið heppilegra, eins og lagt var til í upphafi þingfundar 29. maí, að ræða þessi mál saman til að gefa heildstæðari lýsingu á málinu.

Hv. þingmaður fullyrðir að frumvarpið sé illa útbúið eða einhverjir vankantar á því. Það var ekki að greina af umræðum um málið 29. maí sl. um persónuverndarreglugerðina. Það komu ekki fram nein sjónarmið um vankanta á þessu frumvarpi. Menn höfðu hins vegar ýmsar spurningar. En það var enginn, að ég heyrði, sem kom með ábendingu um eitthvað sem betur mætti fara, enda nefndi ég það sérstaklega að það er mjög fátt sem hægt er að færa hvort sem er til betri vegar eða einhvers annars. Þingheimi er mjög þröngur stakkur sniðinn þegar kemur að breytingum á frumvarpinu sem ég mælti fyrir fyrir tveimur dögum vegna þess að reglugerð Evrópusambandsins ber að innleiða samkvæmt orðanna hljóðan. Það eru örfá atriði, sem gerð er mjög vel grein fyrir í athugasemdum með frumvarpinu, sem hægt er að útfæra með einhverjum hætti.

Ég hvet hins vegar hv. allsherjar- og menntamálanefnd til að fá til sín frumvarpshöfundinn, Björgu Thorarensen, sem hefur verið talin sérfræðingur í persónuverndarlöggjöf, sem samdi þetta frumvarp og gerði það að mínu mati mjög vel.