148. löggjafarþing — 65. fundur,  31. maí 2018.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á XI. viðauka og bókun 37 við EES-samninginn.

612. mál
[18:13]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég hjó eftir því að hv. þingmaður beindi til mín spurningum sem ég ætla að koma að í seinni ræðu minni í þessu máli, ágætisspurningar sem gefa mér tækifæri til að reifa þá möguleika sem voru fyrir hendi við upptöku gerðarinnar í EES-réttinn. Mig langar hins vegar að spyrja hv. þingmann. Hann nefndi í ræðu sinni að hann setti fyrirvara við hitt málið, ef má kallað það svo, þ.e. mál nr. 622, frumvarp um persónuverndarreglugerðir, sem ég mælti fyrir fyrir tveimur dögum. Hann sagðist setja fyrirvara við það en geta stutt þessa þingsályktunartillögu út af fyrir sig. Hv. þingmaður nefndi að hann ætti samt sem áður eftir að kynna sér frumvarpið. En ég heyrði hann flytja ræðu eftir framsögu mína í persónuverndarmálinu þar sem hann lýsti því að hann hefði fylgst með þessum málum mjög lengi, og endurtók það hér, í raun kannski frá því að málið fæddist fyrst í Evrópusambandinu fyrir mörgum árum. Ég geri þá ráð fyrir að hann þekki persónuverndarreglugerðina eins og hún kemur af kúnni, ef svo má að orði komast, eins og hún var samþykkt árið 2016. Þess vegna langar mig að vita hvort hann geti nefnt þótt ekki væri nema eitt atriði sem hann telur ekki vera í samræmi við reglugerðina í þessu lagafrumvarpi. Nú bendi ég á að lagafrumvarpið sem ég mælti fyrir er íslenskur texti sem er saminn hér og er til þess ætlaður að veita yfirsýn yfir persónuverndarreglugerðina, hina almennu persónuverndarreglugerð, sem er fylgiskjal. Persónuverndarreglugerðin sjálf er fylgiskjal með þessu frumvarpi og verður að lögum, lagatexti.

Ég spyr í ljósi þess að hv. þingmaður hefur fylgst mjög vel með þessu og hélt langa ræðu (Forseti hringir.) fyrir tveimur dögum án þess að koma inn á það hvort það væri eitthvert eitt atriði sem hann væri ósáttur við í því frumvarpi sem ég mælti fyrir.