148. löggjafarþing — 65. fundur,  31. maí 2018.

siðareglur fyrir alþingismenn.

443. mál
[21:23]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta er mjög góð spurning. Það er mikilvægt að átta sig á því að það er ekki bara annaðhvort trúnaður eða ekki, það er ákveðin dreifing á trúnaði. Hv. þingmaður segir skálkaskjól. Ég er almennt séð að vísa í það til hvers hægt er að nota trúnað. Ég er ekki að vísa til neinna sérstakra atvika eða eitthvað svoleiðis. Ég tók dæmi, sem er opinbert, um borgarfulltrúa sem var sagður hafa hrörnunarsjúkdóm. Mér finnst það augljóst dæmi um það hvernig ekki má nota trúnað til að hylma yfir slíka hegðun í nefnd. Það er atvik sem á ekki heima í nefndinni hvort eð er, viðkomandi er að brjóta trúnað með því að ráðast á þann hátt á viðkomandi einstakling. Það útskýrir vonandi það að ekki er hægt að tala um algjöran trúnað eða engan trúnað. Ég vona að það hafi komist skýrt í gegn.

Vissulega já, ég get túlkað eigin afstöðu og þá eigin skoðanir og upplifanir af nefndastarfinu. Ég tel það vera mína upplifun þegar ég lýsi því að ég hafi upplifað mótþróa í nefndastarfi í ákveðnu máli, það er mín upplifun. Fólk getur verið ósammála því, það er allt í lagi líka. Þá förum við bara í það að útskýra af hverju ég upplifi mótþróa og af hverju viðkomandi, sem kannski var hinum megin borðsins eða áhorfandi, finnst svo ekki hafa verið. Það er bara heilbrigð umræða sem við getum átt.