148. löggjafarþing — 67. fundur,  4. júní 2018.

almennar stjórnmálaumræður.

[20:43]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Góðir landsmenn. Það er margt sem okkur greinir á um í þessum sal. Það eru mismunandi áherslur á milli flokka og eru stjórnarflokkarnir ekki undanskildir í því efni. Á yfirstandandi þingi hefur stjórnarandstaðan sérstaklega beint spjótum að forsætisráðherra og hennar flokki fyrir að standa ekki nægilega vel vörð um áherslur Vinstri grænna í stjórnarsamstarfinu. Þessi gagnrýni er í senn ósanngjörn og ómálefnaleg — og hittir þá reyndar verst fyrir sem að henni standa.

Vinstri grænir hafa frá stofnun verið eini íslenski stjórnmálaflokkurinn sem hefur verið andvígur veru Íslands í NATO. Þetta er eitt af stefnumiðum flokksins en alls ekki hið eina. Hins vegar var annar stjórnmálaflokkur stofnaður fyrir fáeinum misserum í kringum eitt stefnumál, inngöngu í Evrópusambandið. Það var þó ekkert tiltökumál fyrir þann flokk að leggja þetta eina stefnumál sitt til hliðar fyrir sæti í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokki. Og að loknum síðustu kosningum ítrekaði formaður Viðreisnar að flokkur hennar myndi ekki gera umsókn um aðild að Evrópusambandinu að skilyrði fyrir ríkisstjórnarþátttöku.

Ekki ætla ég að gagnrýna Viðreisn fyrir þessa afstöðu. Með því að gera aðild að ESB að skilyrði fyrir þátttöku í ríkisstjórnarsamstarfi væri Viðreisn dæmd til áhrifaleysis við stjórn landsmála, enda er ekki nokkur einasti áhugi á því hér á landi að ganga í Evrópusambandið ef frá eru taldir tvíburaflokkarnir Samfylkingin og Viðreisn.

Það er hins vegar ósmekklegt í hæsta máta að ráðast ítrekað á forsætisráðherra fyrir að ríkisstjórn hennar byggi á þjóðaröryggisstefnu samþykktri á Alþingi sem felur í sér aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu. Vinstri grænir hafa auðvitað ekki snúið baki við stefnu sinni varðandi NATO með forystu sinni í ríkisstjórn, ekki frekar en Viðreisn sneri baki við sínu eina stefnumáli með þátttöku í síðustu ríkisstjórn.

Það er nefnilega ábyrgðarhluti að veljast til forystu í landsmálum. Sumir standa undir þeirri ábyrgð, aðrir ekki. Sú ábyrgð felst m.a. í því að gera málamiðlanir og koma á festu við stjórn landsins. Það hefur tekist með þeirri ríkisstjórn sem nú situr undir forsæti Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra.

Áherslur ríkisstjórnar endurspeglast á mörgum sviðum og þvert á ráðuneyti. Það var til að mynda sérstakt fagnaðarefni þegar við fullgiltum á dögunum Istanbúl-samninginn um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi gegn konum og heimilisofbeldi. Öflugri hagsmunagæsla við innleiðingu á EES-reglum er annað dæmi um áherslu ríkisstjórnarinnar sem gengur þvert á öll ráðuneyti og síðast en ekki síst stóraukin framlög til þróunarmála.

Virðulegi forseti. Eins og ég gat um í upphafi er margt sem okkur greinir á um í þessum sal en markmið okkar allra er hið sama, að bæta lífskjör þeirra sem hafa falið okkur að stjórna landinu. Margt hefur gengið í haginn á undanförnum árum og lífskjarasókn hér verið með miklum eindæmum. Okkur kann auðvitað að greina á um hvernig við skiptum þeim verðmætum sem til verða en til að við getum yfir höfuð farið að deila um það þurfum við fyrst að tryggja að eitthvað sé til skiptanna.

Það er svo margt sem við viljum gera, bæði fyrir okkur sjálf, Íslendinga, og aðra. Við viljum efla hér skólakerfið, heilbrigðiskerfið, samgöngur og aðra innviði og við viljum auka enn okkar framlög til þróunarlanda. En til að þetta sé hægt, og um leið að viðhalda þeim lífskjörum sem við eigum nú að venjast verðum við auka útflutningsverðmætin. Þau eru grundvöllur lífskjara okkar.

Íslendingar voru öldum saman ein fátækasta þjóð Vestur-Evrópu þrátt fyrir öll þau auðæfi sem hér eru til staðar frá náttúrunnar hendi. Það var ekki fyrr en okkur tókst að ná fullveldi yfir okkar eigin málum og stunda frjálsa verslun við aðrar þjóðir sem hagur okkar fór að vænkast. Ísland er skólabókardæmi um hvernig þjóð tekst að brjótast úr viðjum fátæktar í krafti fullveldis og fríverslunar.

Virðulegur forseti. Góðir landsmenn. Markaðssókn á erlenda markaði verður áfram grundvöllur okkar lífskjara. Um þetta eigum við öll að geta sameinast. Stjórnvöld og atvinnulífið verða að taka höndum saman í þessu mikilvæga verkefni. Þótt okkur kunni að greina á um margvísleg atriði hér heima erum við öll í sama liðinu þegar við spilum á útivelli. Höfum hugfast að heimurinn er að breytast hratt, nýir markaðir að opnast og milliríkjaviðskipti að verða landamæralaus.

Það hvernig okkur tekst til í þessu verkefni á næstu misserum mun ráða því hvernig lífskjör okkar verða næstu áratugi og hvort við höfum afl til að hrinda góðum fyrirætlunum í framkvæmd. Við stjórnmálamenn þurfum að hefja okkur yfir dægurþrasið og standa saman um þau mál sem sannarlega eru grundvöllur að farsælu lífi á okkar fagra landi.