148. löggjafarþing — 68. fundur,  5. júní 2018.

kjararáð.

630. mál
[16:09]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Nákvæmlega. Kjararáð átti að taka ákvörðun í samræmi við lög. Hvað sögðu lögin? Lögin sögðu að innra samræmi og ytra samræmi ætti að vera og utan um það allt átti að vera almenn launaþróun. Ytra samræmið felst í því að miða á þá sem kjararáð þarf að taka ákvörðun um við aðra sem gætu verið sambærilegir í þjóðfélaginu, en heyra ekki undir kjararáð. Það er ein ákvörðun.

Innra samræmið felst í því að ef einhver sem er undir kjararáði hækkar í launum þarf að gæta að samræmi við aðra, þ.e. aðrir þurfa að hækka í samræmi við það.

Svo er alveg skýrt að þeir sem hafa lesið lögin, lesið greinargerðirnar, lesið hvernig þetta færðist úr kjaranefnd yfir í Kjaradóm og síðan í kjararáð — það var sérstaklega ítrekað: Við ætlum að herða á því og passa sérstaklega vel að heildarákvörðun, varðandi innra og ytra samræmi, fari ekki umfram almenna launaþróun. Það er það sem lögin segja.

Nú eru allir sem ég hef talað við, sama hvort það er í forsætisnefnd eða annars staðar, sama hvar komið er að þessu, á sama máli um að laun þingmanna fóru umfram almenna launaþróun. Það var gripið til þess að einhverju leyti, sem var síðan bent á að væri ekki nóg, að lækka þá kjör þingmanna eitthvað í forsætisnefnd. Tökum eftir því að forsætisnefnd hefur enn þá þessa heimild. Það að horfa á það að við höfum ekki enn áhrif á laun okkar og kjör verður ekki rétt með þessu frumvarpi. En þetta er alla vega skref í rétta átt hvað það varðar. En það er alveg ljóst.

Allir aðilar sem tóku þátt í þessu samtali í samfélaginu, það er málið, allir aðilar á vinnumarkaði, voru sammála um að þetta fór umfram það sem lögin heimiluðu þeim. Þeir tóku ákvörðun um að hækka laun þingmanna umfram almenna launaþróun. Það er það sem lögin sögðu að ekki mætti gera.