148. löggjafarþing — 68. fundur,  5. júní 2018.

Þjóðskrá Íslands.

339. mál
[18:20]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Fyrst við erum farin að tala um hvar við byrjuðum að þurrka út gjaldökuskilyrði má ég til með að nefna Landmælingar Íslands sem voru gerðar gjaldfrjálsar í opnum aðgangi í ráðherratíð Svandísar Svavarsdóttur, fyrrverandi umhverfisráðherra. En ég held að þetta sé alveg rétt hjá þingmanninum, innan skamms munum við taka upp gjaldtökuákvæði í þessum lögum og ótal öðrum, samræma þau með þeim hætti að allri gjaldtöku fyrir gögn sem sannarlega hefur verið safnað með opinberum fjármunum og unnið með á sama hátt, þessar gjaldtökuheimildir verði teknar út og allri gjaldtöku stillt í hóf.

Þetta var um markmiðið með gjaldtökunni.

Síðan hitt sem þingmaðurinn kom inn á og mér þótti áhugavert að hlusta á og aftur er atriði sem við höfum rætt áður og munum örugglega ræða aftur, það er markmiðið með gögnunum og gagnasöfnuninni sjálfri. Þjóðskrá er gríðarlega mikilvæg skrá, grunnskrá hins opinbera. En hún er mikill bútasaumur sem að stofninum til er byggður á lögum sem eru áratugagömul. Þau lög sem við erum með hér til umræðu eru ramminn utan um reksturinn. Hér er því safnað saman á einn stað. Í framhaldinu þarf síðan að fara að setja lög um inntakið. Það þarf að taka upp lög um þjóðskrá og almannaskráningu sem eru frá 1962. Þá þarf akkúrat að spyrja þessara spurninga sem þingmaðurinn spurði: Af hverju erum við að safna þessum upplýsingum eða hinum? Af hverju heldur ríkið utan um trúfélagaskráningu almennings? Af hverju ekki skráningu í íþróttafélög? Hvar drögum við mörkin? Þó að þetta frumvarp verði samþykkt á næstu dögum er það bara skref á miklu lengri leið.