148. löggjafarþing — 68. fundur,  5. júní 2018.

Þjóðskrá Íslands.

339. mál
[18:29]
Horfa

Frsm. allsh.- og menntmn. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni svarið. Nú upplifi ég mig svolítið á skrýtnum stað í tilverunni, að vera kominn í andsvar og þurfa að svara spurningu hv. þingmanns. En herra forseti, ég skal taka þátt í því samtali án þess að ég ætli að snúa þessu andsvari alveg á haus. Það er rétt sem hv. þingmaður kemur inn á, við vorum nýverið að samþykkja frumvarp til laga um markaðar tekjur en við höfum ekki stigið skrefið til fulls þrátt fyrir að hafa tekið mikilvægt skref með samþykkt þess frumvarps. Og það er rétt sem hv. þingmaður kemur inn á, með þessu frumvarpi hér er ekki verið að breyta fjármögnun stofnunarinnar. Þá sitjum við svolítið uppi með það að hún er að hálfu fjármögnuð með gjaldtöku og að hálfu með fé úr ríkissjóði. Það tengist auðvitað því hvernig gjaldtakan verður síðan til. En það breytir ekki því sem við fórum yfir, aðallega hv. þm. Björn Leví Gunnarsson og Andrés Ingi Jónsson, þeir fóru mjög vel yfir gjaldtökuna í sínum andsvörum, á hverju hún á og má byggja.

Mér fannst hv. þingmaður í upphafi ræðu sinnar fara inn á ríkisfjármálaáætlun og ræða það hvernig við kostum eða fjármögnum þjóðskrá, stofnunina, til næstu ára. Við höfum rætt það nokkuð í fjárlaganefnd hvernig málaflokkarnir koma fyrir í ríkisfjármálaáætlun, markmiðin og tilganginn með þeim og kostnaðartengingu markmiða.