148. löggjafarþing — 68. fundur,  5. júní 2018.

Þjóðskrá Íslands.

339. mál
[22:14]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er góð spurning. Ég veit það satt að segja ekki. Ég hef ekki skoðað rekstrartölur og ekki nákvæmlega hversu mikið af peningum kemur inn í gegnum þetta hjá þjóðskrá. Það er algjörlega þess virði að athuga það. Ég gerði þessa þrígreiningu hér áðan, á fyrirtækjaskrá, ársreikningaskrá og hluthafaskrá og mig minnir, mig gæti misminnt, að matið frá ríkisskattstjóra varðandi þær skrár hafi verið að ef þær yrðu allar opnaðar þýddi það tekjutap upp á u.þ.b. 200 milljónir. Hvort það var satt og hvort mig minnir rétt er svo önnur spurning. En það eru hugsanlega töluverðar upphæðir sem koma inn til ríkisskattstjóra út af þessu.

Ég lít svo á að þessi gögn eigi að vera opinber. Það er ekki leyndarmál hver á fyrirtæki og ársreikningar fyrirtækis, útdráttur af þeim er hvort eð er aðgengilegur, eru ekki leyndarmál. Það er alltaf hægt að kaupa þessi gögn, bæði hjá ríkisskattstjóra og fyrirtækjum eins og Creditinfo sem er reyndar þess virði að minnast á. Það gerði ekki athugasemdir, hvorki jákvæðar né neikvæðar, við frumvarpið á sínum tíma þannig að hugsanlega hafa þeir viljað halda sig utan þeirrar deilu og kannski hafi aðrir aðilar sem eru í svipuðum bransa viljað það sama.

Mér finnst mjög varhugavert að ríkisskattstjóri skuli fara fram með þessum hætti. Mér finnst mjög varhugavert að aðrar stofnanir geri það. Ég held að við ættum algjörlega að skoða það í tilfelli þjóðskrár og ef við getum í nafni þinglegrar samvinnu sett saman sameiginlega fyrirspurn um hvernig fjármunum er ráðstafað nákvæmlega inni í þessum stofnunum til að skilja réttlætinguna væri það bara hið besta mál.