148. löggjafarþing — 69. fundur,  6. júní 2018.

störf þingsins.

[10:34]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Nú þegar við erum hér á síðustu dögum þingsins að vinna að því að ná samkomulagi og sátt um hvernig við ljúkum þingstörfum í vor og mörg mál þar undir tel ég rétt að það sé rifjað upp að góð samstaða getur náðst hér eins og varð í atvinnuveganefnd með frumvarp um strandveiðar. Það tókst að ná breiðri sátt um það frumvarp sem atvinnuveganefnd flutti og varð að lögum og er unnið eftir því í strandveiðum. Fyrsti mánuðurinn hefur komið mjög vel út og hefur dreifingin á milli landshluta verið góð og allt gengið eftir eins og við sem vorum forsvarsmenn að þessu máli töluðum fyrir sem betur fer.

Áhyggjuefnið er það að bátum á strandveiðum heldur áfram að fækka yfir höfuð eins og gerðist á milli áranna 2016 og 2017, það er áhyggjuefni. En ég vona að þetta nýja frumvarp verði til þess að fleiri fari á strandveiðar og nýti sér þá aukningu sem er í strandveiðipottinum.

Það var 41 bátur sem náði yfir 10 tonnum á strandveiðum í maímánuði, sú dreifing er yfir landið. Aflinn í maí var tæp 19% af því sem er til skiptanna til strandveiða, svo að allt er þetta á góðri leið með að sýna og sanna að nú eru öryggissjónarmiðin undir. Menn eru ekki að æða út í leiðindaveðri. Aflabrögð mættu vissulega vera betri víða, en við ráðum ekki aflabrögðum eða veðri hér, alþingismenn. Þó að við viljum ráða miklu þá er það einn sem ræður þar. En ég vil lýsa ánægju með að það tókst að vinna þetta mál í mikilli samstöðu hér á þingi.