148. löggjafarþing — 69. fundur,  6. júní 2018.

störf þingsins.

[10:42]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Í gær spurði ég hæstv. forsætisráðherra út í svar fjármálaráðherra við fyrirspurn minni um skattaskjólsskýrslu sem rataði ofan í skúffu rétt fyrir kosningar 2016. Ég spurði hvort það væri virkilega satt að ráðherrar þyrftu ekki að fara eftir siðareglum í þeim málum sem þeir ættu frumkvæði að. Svarið frá hæstv. forsætisráðherra var mjög skýrt: Nei, það er ekki satt. Bein tilvitnun til að forðast að leggja einhverjum orð í munn. Með leyfi forseta:

„… siðareglur eiga auðvitað við um öll störf hæstv. ráðherra sem og hv. þingmanna hvernig sem þau ber að.“

Þetta ættu allir að þekkja, það mál sem hér um ræðir. Í apríl 2016 sprakk ríkisstjórn út af Panama-skjölunum. Í þeim skjölum var að finna nafn þáverandi og núverandi fjármálaráðherra sem hélt embætti sínu þrátt fyrir allt. Þrátt fyrir tengsl sín við málið tók fjármálaráðherra rannsókn málsins af þinginu að eigin frumkvæði og lét gera skýrslu um umfang eigna Íslendinga í skattaskjólum. Eins áhugavert og efni skýrslunnar er og eins nauðsynlegt og það er að halda áfram þeirri rannsókn sem þar var hafin er einnig mjög mikilvægt að fara yfir afdrif skýrslunnar, hvernig fjármálaráðherra faldi skýrsluna fram yfir kosningar af því að hann vildi ekki setja hana í kosningasamhengi, hvernig fjármálaráðherra brást skyldum sínum við almenning.

Virðulegi forseti. Kæru þingmenn. Lög um ráðherraábyrgð eru skýr.

„Ráðherra má krefja ábyrgðar samkvæmt því, sem nánar er fyrir mælt í lögum þessum, fyrir sérhver störf eða vanrækt starfa, er hann hefur orðið sekur um, ef málið er svo vaxið, að hann hefur annaðhvort af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi farið í bága við stjórnarskrá lýðveldisins, önnur landslög eða að öðru leyti stofnað hagsmunum ríkisins í fyrirsjáanlega hættu.“

Ég tel fjármálaráðherra hafa vanrækt starf sitt af ásetningi og með því brotið lög. Rök fyrir því eru öllum aðgengileg sem vilja vita af því.