148. löggjafarþing — 69. fundur,  6. júní 2018.

barnaverndarmál.

[15:20]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka málshefjanda og hæstv. ráðherra fyrir að vekja máls á þessu efni.

Eins og komið hefur fram í máli annarra ræðumanna eru barnaverndarmál með viðkvæmustu málum sem við fjöllum um og trúnaður og gagnheldni skulum við segja kannski eitt það almikilvægasta í því samhengi og ég er sammála málshefjanda hvað það varðar að afar mikilvægt er að slíkt sé tryggt.

Mig langar að nefna tvö til þrjú atriði sem mér finnst mikilvægt að impra á. Ráðherra hefur sagt að vinna sé þegar hafin í ráðuneytinu að endurskoðun þessara málaflokka, og er það vel. Í því sambandi vil ég taka tvennt fram.

Ég tel að mjög mikilvægt sé að í þeirri vinnu sem þar er að fara í gang komi allir þeir aðilar sem eiga hlut að máli að málinu, þar með talið þeir sem kynnu á einhverjum tíma á ævi sinni að hafa verið það sem við myndum kalla notendur barnaverndarkerfisins, vegna þess að sjónarmið þeirra einstaklinga hljóta að vera mikilvæg þarna inni. Ég vil hvetja ráðherra eindregið til að horfa til þessa.

Þá tel ég einnig að lagaumgjörðina utan um Barnaverndarstofu, eins og hún er í lögunum núna, þurfi að endurskoða. Mér þykja, og hef sagt það raunar áður, lagaheimildir Barnaverndarstofu, eins og þær koma fram í lögunum í dag, rýmri en ástæða er til og ég tel í raun að það hafi að einhverju leyti komið fram í þeirri umræðu sem átti sér stað hérna fyrr í vetur varðandi þessi mál. Það er um að gera fyrst verið er að endurskoða málin í heild að horfa til þeirra mála í dag.