148. löggjafarþing — 69. fundur,  6. júní 2018.

tollalög.

518. mál
[20:21]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að hafa svo jákvæðan og góðan áhuga á ræðu minni hér áðan. Hann talar um lagasetningu og guðfræði í þeim efnum. Þetta var fyrst og fremst sett fram, þessi texti, vegna þess að ég vildi sýna fram á að guðsorð getur talað inn í svo margvíslegar aðstæður í lífinu, þar á meðal í þessu mikilvæga máli sem er að koma til móts við og aðstoða náungann í hans neyð og fátækt. Það færum við yfir á alþjóðasamfélagið og ábyrgð þess gagnvart fátækum þjóðum og þar komum við að því sem ég nefndi í ræðu minni, að það eru fyrirmæli í 5. Mósebók þess efnis að við eigum að hugsa um náungann og eigum að koma til móts við hann. Það má yfirfæra það yfir á þjóðir. Það var gert á tímum stórveldisins Mesópótamíu. Í því felst, eins og ég nefndi hér áðan, sú blessun að ef þú gefur af þér með þessum hætti, þú fellir niður skuldir, þá færðu blessun drottins í staðinn. Það er einmitt akkúrat lykilatriði í þessu.

Ég var ekki beint að tala um það að við ættum að yfirfæra þetta yfir á lagasetningu með ákveðnum hætti, hins vegar var þetta fyrst og fremst sett fram til umhugsunar, vegna þess að málið er mikilvægt. Við þurfum ávallt að skoða það hvaða leiðir hægt er að fara, þar á meðal er skuldaniðurfelling mjög mikilvæg. Það hefur meðal annars komið fram í skýrslu á vegum Sameinuðu þjóðanna að þessi leið skiptir þessar þjóðir verulegu máli.