148. löggjafarþing — 69. fundur,  6. júní 2018.

tollalög.

518. mál
[20:34]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka þingmanninum andsvarið. Þetta er ágæt spurning. Það er kannski blessunarlega að það hefur ekki mikil áhrif á ákvarðanir þessara tilteknu ríkja þó að Ísland, eitt ríkja, hafi ákveðið að hafa ekki þessa næstu deild í utanríkisviðskiptum, en þetta er alveg rétt ábending. Fjölmörg ríki hafa líka innleitt tilslakanir á tollvernd gagnvart næstverstsettu ríkjum heims.

Enn og aftur í okkar tilfelli: Við erum að horfa á lönd sem við eigum mjög óveruleg viðskipti við, eru oftar en ekki það fjarlæg okkur að það er strax ákveðin, getum við sagt, fjarlægðarvernd á innflutning frá þeim, þ.e. það er talsvert kostnaðarsamt að flytja vörurnar hingað inn. Þess vegna er þetta meira grundvallarafstaða eða það að sýna lit í málum að bjóða einnig upp á þennan möguleika og fylgja þar fordæmi fjölmargra annarra ríkja.

Ég held einmitt, og endurtek það sem ég sagði í ræðu minni, að það sé mjög mikilvægt hvað þennan hóp ríkja varðar, að við nálgumst þetta miklu frekar sem skipulega þróunaraðstoð en hefðbundnar viðræður um fríverslun. Færi vel á því að stjórnvöld sýndu metnað í að ganga enn lengra og kannski hraðar í þetta sinn en þau 18 ár sem það tók að koma þessum áfanga í gegn.