148. löggjafarþing — 69. fundur,  6. júní 2018.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 186/2017 um breytingu á XVII. viðauka við EES-samninginn.

545. mál
[21:13]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir ræðuna. Það getur vel verið að ég sé algjörlega úti á túni með þetta andsvar og þessa spurningu en ég er að velta nokkru fyrir mér. Við sáum hér ekki alls fyrir löngu að upp kom ákveðin gagnrýni varðandi nýja veitu þar sem hægt er að hlusta á, ef ég kann þetta rétt, sögur og þess háttar. Það kom meðal annars fram að þeir rétthafar, þ.e. þeir sem eiga og bjuggu til það efni sem þar er, voru, ef ég man þetta rétt, eitthvað ósáttir við hvernig þetta fór af stað. Það sem ég er hreinlega að velta fyrir mér er hvort þingmaðurinn telji að þetta mál, sú þingsályktunartillaga sem við erum hér með og það sem fylgir vonandi í framhaldinu, sé til þess einhvern veginn að skýra eða bæta úr þeirri stöðu sem kom upp þá.

Þingmaðurinn nefndi réttilega tónlistarveitur og kvikmyndaveitur og hvað þetta heitir allt saman en þarna var eitthvað nýtt, að minnsta kosti nýtt fyrir mér það sem þarna kom, og þess vegna fór ég að hugsa um þetta núna þegar ég hlustaði á ræðu þingmannsins hvort við værum þarna komin með eitthvert verkfæri, bæði til að skera úr og bæta og laga stöðu þeirra sem þarna eiga efni. Ég er áskrifandi að Spotify og ég borga glaður fyrir að fá þá þjónustu. Mér finnst að það eigi að vera viðmið að við séum ekki að ná okkur í efni án þess að þeir sem lögðu það á sig að búa það til fái eitthvað fyrir það.