148. löggjafarþing — 70. fundur,  7. júní 2018.

persónuafsláttur og skattleysismörk.

[10:52]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegi forseti. Lífeyrir, tekjutrygging, heimilisuppbót voru við upphaf staðgreiðslu 1988 án skatts og það var afgangur af persónuafslættinum upp í aðrar tekjur, t.d. lífeyrissjóðstekjur. Þrepaskiptur persónuafsláttur er góð leið til að láta persónuafslátt fjara út þegar lífeyrisþegar og launafólk hefur náð yfir t.d. 900 þús. kr. sem er við efra skattþrep. Skattleysismörk eru 30–40% af tekjum lífeyrisþega en einungis 6% af tekjum þingmanna, 3% ráðherra. Skattleysismörk eru þannig mjög mikilvæg fyrir lífeyrisþega en skipta hátekjufólk hins vegar litlu eða engu máli. Munið að örorkulífeyrislaunin voru skattlaus við upphaf staðgreiðslu 1988 og það var afgangur af persónuafslætti upp í lífeyrissjóðsgreiðslur og einnig voru lágmarkslaun skattlaus á þeim tíma.

Ég spyr því ráðherra hvort honum finnist það ekki eðlilegt að við á okkar háu launum afsölum okkur persónuafslætti til þess að koma hinum sem þurfa á honum að halda, láglaunafólki sem er með 300 þús. kr., 220 þús. útborgað, og skattað, að það fái þennan persónuafslátt. Við eigum að sjá til þess að fólk geti lifað hérna með reisn. Við erum með veikt fólk, við erum með eldri borgara sem eiga ekki fyrir mat, lyfjum og öðrum hlutum en á sama tíma erum við að skammta okkur góð laun og sleppa því að sjá til þess að fólk sem hefur ekki til hnífs og skeiðar sé ekki skattað. Við verðum að setja hlutina þannig fram að við hættum að skatta fátækt fólk, hvað þá sárafátækt, vegna þess að það er þjóðarskömm.