148. löggjafarþing — 70. fundur,  7. júní 2018.

verðtrygging fjárskuldbindinga.

[11:07]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (Flf):

Herra forseti. Ég þakka fyrir að fá tækifæri til að vera málshefjandi við sérstakar umræður um verðtryggingu fjárskuldbindinga. Um leið þakka ég fjármála- og efnahagsráðherra fyrir að vera til andsvara.

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar segir að hún muni taka markviss skref á kjörtímabilinu til afnáms verðtryggingar á lánum, en samhliða þeim verði ráðist í mótvægisaðgerðir til að standa vörð um möguleika ungs fólks og tekjulágra til að eignast húsnæði. Til grundvallar umræðunni liggja nokkrar spurningar sem ég óska svara ráðherra við og leyfi mér að vænta að þau verði eins ítarleg og kostur er.

Í fyrsta lagi. Hvaða áform hefur ríkisstjórnin uppi um markviss skref til afnáms verðtryggingar á lánum, sem boðuð eru í fyrrgreindri stefnuyfirlýsingu, og hafa einhver skref þegar verið stigin? Ef ekki, hvenær áformar ráðherra að stíga fyrsta markvissa skrefið og í hverju verður það fólgið?

Í öðru lagi. Lántaki tekur á sig áhættu vegna verðbreytinga með því að ábyrgjast greiðslur í samræmi við þær til lánveitanda, sterkari aðilans í samningssambandinu, og hefur litla sem enga möguleika á að verjast þessari áhættu. Til hvaða mótvægisaðgerða hyggst ríkisstjórnin grípa í því skyni að jafna þennan aðstöðumun?

Í þriðja lagi. Mikil óvissa, svo ekki sé sterkar að orði kveðið, ríkir um framtíðargreiðslur af verðtryggðum lánum vegna óvissu um framvindu efnahagsmála og verðlagsþróun. Til hvaða mótvægisaðgerða hyggst ríkisstjórnin grípa til að draga úr óvissu og treysta fjárhagsgrundvöll lántaka í þessu tilliti?

Í fjórða lagi. Lántaka er ætlað að bæta lánveitanda álagningu óbeinna skatta eða hækkun slíkra skatta að svo miklu leyti sem slíkt leiðir til hækkunar á vísitölu. Nýlegt dæmi er 50% hækkun kolefnisgjalds til að rækja markmið í loftslagsmálum sem gróflega áætlað leggur allt að 500 millj. kr. byrðar á heimilin og skapar fjármálastofnunum kröfur á þau að sama skapi án þess að þau hafi nokkuð til unnið. Lánastofnanir hafa allt afl réttarkerfisins að baki sér til að innheimta þær kröfur sem stofnast vegna þess að ríkisstjórnin er að rækja markmið í loftslagsmálum. Heimilin eiga engar varnir. Til hvaða mótvægisaðgerða hyggst ríkisstjórnin grípa svo aðilar að verðtryggðum lánasamningi standi jafnfætis þegar kemur að áhrifum óbeinna skatta á skuldbindingar og réttindi þeirra?

Í fimmta lagi. Húsnæðisliður vísitölunnar hefur af ýmsum ástæðum leitt af sér umtalsverða hækkun vísitölu þrátt fyrir að almennt verðlag í landinu hafi farið hjaðnandi. Hækkun húsnæðisliðar á sér sumpart rót í stefnu Reykjavíkurborgar sem einkennist af lóðaskorti og tilheyrandi hækkun á fasteigna- og leiguverði. Til hvaða mótvægisaðgerða hyggst ríkisstjórnin grípa til að verja lántaka fyrir slíkum íþyngjandi áhrifum sem þeir hafa fáar eða engar varnir gegn?

Fjármálaráðherra hefur fyrir skemmstu upplýst í svari við fyrirspurn frá þeim sem hér stendur að á liðnum fimm árum hafi verðbætur vegna íbúðalána numið 15 milljörðum vegna almennra verðhækkana en verðbætur á sömu lán vegna húsnæðisliðar vísitölunnar hafi numið 118 milljörðum kr. Hann einn leggur 118 milljarða kr. ofan á heimilin þar sem þau hefðu ella þurft að taka á sig 15 milljarða vegna almennra verðhækkana. Sjá menn skrímslið?

Nú þegar við blasir að meiri hluti borgarstjórnar fær fjögur ár til viðbótar til að halda uppi stefnu lóðaskorts og sérvisku blasir við að húsnæðisliðurinn mun halda áfram að hækka af þeim ástæðum.

Ég kallaði eftir því í eldhúsdagsumræðum fyrr í vikunni að ríkisstjórnin sjái til þess að húsnæðisliðurinn verði án tafar felldur brott úr vísitölunni. Þetta væri neyðarráðstöfun til að verja heimilin gegn því að missa húsnæði, eins og allt of margar fjölskyldur þekkja með tilheyrandi róti og öryggisleysi sem kemur harðast niður á börnunum.

Tekur ráðherra undir að þróun húsnæðisliðarins á skjön við almenna verðlagsþróun í landinu gefi tilefni til að fella án tafar húsnæðisliðinn brott úr vísitölunni með það að markmiði að verja heimilin fyrir þeirri eignaupptöku sem við blasir?