148. löggjafarþing — 70. fundur,  7. júní 2018.

verðtrygging fjárskuldbindinga.

[11:42]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Hæstv. forseti. Ég vil fyrst af öllu þakka upphafsmanni þessarar umræðu og hæstv. fjármálaráðherra fyrir að þetta mikilsverða mál sé komið hér til umræðu. Það kom fram í máli hæstv. fjármálaráðherra að víst sé í stjórnarsáttmála gert ráð fyrir markvissum skrefum til þess að afnema verðtryggingu, en áform séu ekki um að fara í það alveg á næstunni. Þetta er leiðarstef hjá ríkisstjórninni. Eiginlega í flestum málum eru áform uppi, en það stendur alls ekki til að fara í þau í næstu framtíð.

Herra forseti. Þegar neyð ríkisstjórnarinnar er stærst þá er hjálpin næst. Miðflokkurinn er búinn að leggja fram frumvarp um að húsnæðisliðurinn verði tekinn út úr vísitölu. Það frumvarp er núna í efnahags- og viðskiptanefnd og er ekkert að vanbúnaði að taka það þaðan út og færa inn í þingsal þannig að við getum átt um það umræður. Það hefur komið í ljós í djarfmannlegri innfærslu formanns Framsóknarflokksins að sá flokkur hafi ætíð stutt það að húsnæðisliðurinn færi út úr vísitölu og þá er alveg ljóst að þar sem Miðflokkurinn og Framsóknarflokkurinn og auðvitað Flokkur fólksins eru hlynntir því að þetta mál verði tekið þessum tökum, ég á von á því að Píratar jafnvel geri það líka, er hér breið samstaða til þess að hjálpa ríkisstjórninni í þessu máli, hæstv. ráðherra.

Það liggur því beinast við að þessu máli um að taka húsnæðisliðinn út úr vísitölu þeirri sem lögð er til grundvallar þegar húsnæðislán eru tekin verði einfaldlega hraðað í gegnum efnahags- og viðskiptanefnd, það verði tekin hér góð umræða og málið að endingu samþykkt mjög fljótt. Þar með er málið leyst, hæstv. ráðherra, og verður okkur öllum til sóma.