148. löggjafarþing — 70. fundur,  7. júní 2018.

verðtrygging fjárskuldbindinga.

[11:44]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Ég legg áherslu á að það er mikilvægt að skoða heildarsamhengi hlutanna, allar veigamiklar breytingar sem snerta efnahagslegan og fjármálalegan stöðugleika. Þá er ég að ræða peningastefnu, fjármálastöðugleikann, hag heimila og möguleika heimila til að fjármagna fasteignakaup og hvaða mælikvarða er skynsamlegt að miða við með alla þessa þætti í huga. Þess vegna lögðum við Framsóknarmenn fram þingsályktunartillögu sem samþykkt var á þessu þingi þar sem Alþingi ályktaði að fela fjármála- og efnahagsráðherra að skipa starfshóp sérfræðinga sem meti kosti og galla þess að miða verðtryggingu fjárskuldbindinga við vísitölu neysluverðs án húsnæðisliðar, ellegar að lántaki hafi val um hvaða vísitala liggi til grundvallar verðtryggingu slíkrar skuldbindingar. Við greiningarvinnuna verði sérstaklega horft til þess hvernig verðbólga er mæld í helstu viðskiptalöndum Íslands og metið hvaða áhrif breytingin hefði á launakjör, lánakjör, stöðu verðtryggðra lána og vexti sem og áhrif sem tillögur verkefnisstjórnar um endurmat peningastefnu kynnu að hafa á vísitölu, verðtryggingu og vaxtastefnu Seðlabankans.

Skýrslan um endurmat peningastefnu kom út í fyrradag og þingsálykunartillagan sem Alþingi samþykkti fellur fullkomlega að henni vegna þess að starfshópurinn leggur það til að skoða hvaða vísitölu eigi að leggja til grundvallar. Við verðum að gera greinarmun á því þegar við tökum mið af vísitölu og vaxtaákvörðun til grundvallar inn í kerfið og svo því hvaða viðmið liggja til grundvallar verðtryggðum lánasamningum. Þetta er mikilvægt og þess vegna fellur vel saman sú vinna sem starfshópurinn hefur lagt fram og þingsályktunartillagan, sem var hugsuð sem innlegg í þessa vegferð.