148. löggjafarþing — 70. fundur,  7. júní 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[17:12]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Nú get ég ekki alveg svarað fyrir það hvaða upplýsingar fjárlaganefnd hafði, sótti sér eða fékk ekki í sinni vinnu. En umræddar upplýsingar hef ég vegna þess að við höfum að sjálfsögðu átt í þessum samskiptum við ráðuneytið á meðan áætlunin var í vinnslu og erum þess vegna mjög vel læs á heildartölur. Við vitum hvað er á bak við þær og vitum að þessir hlutir eru eins og ég hef farið yfir, að ég hygg á algerlega á réttan hátt nema mér varð á að segja að OPCAT-verkefnið væri hér inni fjármagnað. Svo er ekki, en það hafa hins vegar verið í gangi samtöl um fjármögnun þess. Það verður að sjálfsögðu tryggt, enda er búið að heita Alþingi því og umboðsmanni Alþingis að ef hann taki að sér það verkefni fái hann til þess algjörlega sjálfstæða fjárveitingu. Ráðuneytið, sem bað í raun og veru Alþingi að taka þetta verkefni að sér, hefur heitið því.

Markmiðið er að sjálfsögðu ekki bara að fjölga starfsmönnum. Þetta er ekki atvinnubótavinna. Mér finnst eiginlega óþarfi að velta vöngum yfir slíku. Þekkja það ekki allir að oft er mikið álag á nefndasviði Alþingis, t.d. eins og núna þessa daga? Það kæmi sér ákaflega vel að hafa þar kannski tvo, þrjá eða fjóra sérfræðinga í viðbót þegar vinnuálagið er hvað mest. En það er ekki bara til þess að glíma við álagstíma sem þetta er hugsað. Ráðning hagfræðings eða þjóðhagfræðings og teymi sem verður á bak við fjárlaganefnd, og efnahags- og viðskiptanefnd, er í mínum huga ekki síst hugsað til þess að efla einfaldlega burði og sjálfstæði og getu þingsins til þess að geta sjálft lagt dóm á hluti og vera ekki öðrum eins háð og það er í dag um slíkt. Þann draum hef ég náttúrlega lengi átt mér að þingið verði einfaldlega öflugra sjálft til þess að leggja mat á ýmsa hluti og þá ekki síst þá fjárhagslegu og fjármálalegu. Það er nú eitt af stóru verkefnum Alþingis að vera fjárveitingavaldið og fjárstjórnarvaldið.