148. löggjafarþing — 70. fundur,  7. júní 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[18:44]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni ágæta ræðu. Við erum sammála um mjög margt þegar kemur að listum, menningu og menntun. Mig langaði aðeins að koma inn á framlög til framhaldsskóla, sem ég held að við hv. þingmaður séum líka sammála um að megi alltaf vera hærri og sem mest. Þar kemur í ljós að nemendum á næstu árum fækkar, bæði vegna minni árganga og eins breytinga sem ég held að ég og hv. þingmaður séum líka sammála um að hafi verið óráð að gera. Ársnemendum fækkar. Framlög á hvern nemanda hækka töluvert meira en heildartölurnar segja til um.

Annars langaði mig fyrst og fremst til að fá smá leiðsögn hjá hv. þingmanni. Ég heyrði hann fara nokkuð vel yfir ýmsa menningarstarfsemi og ekki síst safnastarfsemi í ræðu sinni. Aftur deilum við hv. þingmaður áhuga þar. Ég gat ekki betur heyrt en að hv. þingmaður væri búinn að brjóta þetta ansi vel niður í hin ýmsu söfn og alla leið niður í segulbandasafn Ríkisútvarpsins. Skólabókasöfn, sem ég hélt sannast sagna að væru flest á forræði sveitarfélaga. Þau í grunnskólum í það minnsta.

En mig langaði einfaldlega að spyrja hv. þingmann: Hvar sér hann þess stað í þessari fjármálaáætlun að framlög í þau söfn sem hann tiltók í ræðu sinni verði ekki nægjanleg?