148. löggjafarþing — 70. fundur,  7. júní 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[21:39]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í nefndaráliti meiri hlutans er talað um hversu gífurleg útgjaldaaukning þetta er, um 117 milljarðar, en það er þá frá og með árinu 2018. Skoðum aðeins hvað það þýðir. Það þýðir 20 milljarðar einu sinni sem helst út sex ára áætlunina, eða rétt rúmlega það, í raun rétt tæplega það. Það er gott og blessað, en stefnumótun þarf að fylgja með og útskýring á því í hvað peningarnir eigi að fara og hvert markmiðið er með því. Til að komast að því báðum við í fjárlaganefnd um gögn sem útskýrðu grunnrekstur ríkisins og hvað stefna ríkisstjórnarinnar kostaði og óskuðum eftir frekari sundurgreiningu á því, sem við fengum ekki. Samkvæmt grunndæminu og þeirri sundurliðun sem við fengum þó, sem var á málefnasviðið í heild, kom í ljós að grunndæmið, stefna stjórnvalda í rauninni, voru þetta 77,9 milljarðar fyrir 2018–2023, 54 milljarðar fyrir árin í áætluninni sjálfri, sem þýðir 10 milljarðar einu sinni sem helst út öll ár fjármálaáætlunarinnar, sem passar mjög vel því að um 20 milljörðum var bætt í fjárlögin 2018.

Þá velti ég fyrir mér: Þetta er aðeins öðruvísi tala en 117 milljarðar. Réttara sagt mínusast væntanlega eitthvað frá þeirri tölu af því þetta er heildartalan og líka með fjárfestingum á meðan 117 milljónirnar eru aðeins rekstrartölurnar. Eru 54 milljarðar gífurlega mikil útgjaldaaukning? Dugar hún til þess að stefna stjórnvalda nái þeim árangri sem ætlast er til?