148. löggjafarþing — 70. fundur,  7. júní 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[22:19]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það vill svo til að þetta er ekki í fyrsta skipti sem hv. þingmaður talar um fjármálaáætlun. Síðast hlustaði ég á hana í sjónvarpsþætti sem var á dagskrá áðan og ég leyfði mér að horfa á. En þetta eru athyglisverð skilaboð frá Samfylkingunni, Jafnaðarmannaflokki Íslands, eins og ég held að flokkurinn heiti enn, til verkalýðsfélaganna eða til aðila vinnumarkaðarins, að það eigi ekki að setjast niður með þeim og ræða, svo ég vitni í fjármálaáætlunina, með leyfi forseta, „að skoða sérstaklega hvernig slíkt fyrirkomulag“, þ.e. með persónuafslátt, „virkar í samspili við bótakerfin, svo sem við greiðslur barnabóta, vaxtabóta og húsnæðisbóta, þannig að hægt sé að gera breytingar sem vinna með markmiðum ríkisstjórnarinnar varðandi lægri tekjuhópa. […] Einn af ýmsum kostum í þá átt er að gera persónuafslátt útgreiðanlegan þannig að hann fjari út eftir því sem tekjur eru hærri.“

Það eru athyglisverð tíðindi ef Samfylkingin er á móti því (Forseti hringir.) að slíkt samtal eigi sér stað eða þá leiði af sér raunverulegar aðgerðir því að það eru þær aðgerðir sem búa til þessa 14 milljarða (Forseti hringir.) sem Samfylkingin ætlar að nýta á annan hátt.