148. löggjafarþing — 70. fundur,  8. júní 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[00:05]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég verð að þakka hv. þm. Óla Birni Kárasyni fyrir að koma með þennan vinkil inn í umræðuna, því þetta er akkúrat það sem við erum að gera, bara miklu meira. Þeir sem nota vegakerfið, ég var einmitt að segja það ef hv. þingmaður hefur hlustað á mig, borga miklu meira til ríkisins en varið er til uppbyggingar vegakerfisins þannig að rúmlega tvöfalt er. Ég fór yfir þessar tölur áðan. Heildartekjur ríkissjóðs á árinu 2016 af ökutækjum og umferð, ef við tökum virðisaukann út fyrir sviga, voru 46 milljarðar. Rétt áðan sagði ég hér í þingsal að það sama ár var 21 milljarði varið til uppbyggingar vegakerfisins. Hvernig eru hlutföllin þá? Ekki ætlar hv. þingmaður Óli Björn Kárason, sem ég held að sé með talnaglöggustu mönnum þingsins, að halda því fram að ökumenn séu ekki að borga fyrir vegakerfið? Það er algjörlega galið.

Það sem ég er að segja er: Við eigum að nota hærra hlutfall af þessum fjármunum til uppbyggingar vegakerfisins til þess að möguleg veggjöld, sem ég held að sé ekkert fram hjá því litið að þau verða að koma til ef við ætlum að komast eitthvað áfram, verði hrein viðbót ofan á þessa miklu, ég leyfi mér að kalla það skattpíningu ökumanna, sem nú er.

En örsnöggt af því að tíminn er að renna frá mér til svara um skattstefnu Miðflokksins. Við erum eini flokkurinn sem greiddi atkvæði gegn öllum skattahækkunum sem lagðar voru fram hér í fjárlagavinnu í desember, öllum, hverri einustu. Við viljum að skattkerfið sé einfalt, gegnsætt og fyrst og fremst hvetjandi. Við viljum að almenningur hafi hvata til að vinna, sýna dugnað og ná árangri. Það er skattkerfi sem við viljum tala fyrir og vinna að.