148. löggjafarþing — 71. fundur,  8. júní 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[11:06]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (Flf):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að tefja þessa umræðu mikið meira en vil impra á örfáum atriðum, örfáum málum, aðallega málefnum landsbyggðarinnar; velta upp nokkrum spurningum varðandi sjúkrahúsþjónustu úti á landi. Auðvitað er það alltaf álitamál hversu öflug sjúkrahúsþjónusta á að vera í dreifðum byggðum. Það er verkefni sem taka þarf á í samtímanum þegar sérhæfð en líka almenn þjónusta dregst saman úti á landi og er flutt á höfuðborgarsvæðið. Landsmenn eiga í síauknum mæli að leita þeirrar þjónustu inn á höfuðborgarsvæðið.

Þetta hefur mætt mikilli andstöðu úti á landi og það þekkja meðlimir fjárlaganefndar. Ef við ætlum að halda landinu í byggð, þannig að það sé eftirsóknarvert fyrir fólk að velja sér búsetu úti á landi, verður að fara þann milliveg að boðið sé upp á þjónustu í þessum geira, sjúkrahúsgeiranum, þannig að sómasamlegt sé, sem víðast á landinu. Auðvitað mega sérhæfðari aðgerðir vera í þéttbýlinu en þetta fjallar mest um það að ekki er hægt að ætlast til þess að íbúar fjarri höfuðborgarsvæðinu þurfi sífellt, jafnvel með minni háttar kvilla eða í sambandi við fæðingar, að ferðast um langan veg til að sækja sér þjónustu. Við verðum að horfa í þetta ef við ætlum að halda landinu í byggð. Þetta hefur breyst mikið eftir hrun, læknisþjónusta, sjúkrahúsþjónusta, heilsugæsla hefur versnað mjög víða um land.

Þarna erum við líka komin að öðru sem ég ætlaði að nefna en það eru sýslumannsembættin. Þar erum við að tala um framlengingu á ríkisvaldinu í héraði sem er af svipuðum meiði og ég nefndi varðandi sjúkrahúsþjónustuna. Þetta er þjónusta sem verður að vera í nálægð við fólkið. Það er ekki fyrirsjáanlegt í framtíðinni, eins langt og við sjáum, að þá þjónustu megi alla veita með fjarfundakerfi í tölvuvæddri framtíð. Alls kyns málefni og aðgerðir sem sýslumannsembættin sjá um er ekki hægt að framkvæma nema augliti til auglitis. Ég ætla kannski ekki að nefna þessi atriði en auðvitað eru margir hlutir í starfsemi sýslumannsembættanna að færast nær nútímanum og hægt að vinna í gegnum tölvu án þess að hitta þann sem í hlut á en ég sé ekki að alfarið sé hægt að veita þessa þjónustu nema með staðsetningu þessara embætta sem víðast um landið. Þau eru núna á níu stöðum, veita alhliða þjónustu við almenning úti um allt land og þangað leita íbúar eftir alls kyns þjónustu. Þessir útverðir framkvæmdarvalds í héraði mega muna tímana tvenna þar sem þetta var hálfgerð umferðarmiðstöð fyrir alla hluti, hverju nafni sem nefndust, fyrir ekki svo mörgum árum. En þessi embætti hafa mátt lifa við að fjárveitingar til þeirra hafa dregist saman og þau berjast nú í bökkum. Það er nauðsynlegt að efla þessi embætti. Þar hef ég nefnt, í andsvörum í gær, nokkur atriði og vill kannski impra á þeim aftur og bæta aðeins við.

Alveg eins og með sjúkrahúsþjónustuna eru ýmsir sérfræðingar sem ferðast um landið til að sinna íbúum í dreifðum byggðum. Það kostar ferðalög, gistingu, vinnutíma, það fer mikill tími í þetta. Er ekki þjóðráð að leitast við að finna í þessu samlegðaráhrif og hagræðingu með því að nýta sýslumannsembættin betur en nú er gert? Annaðhvort að fela þá sýslumannsembættunum mörg þessara verkefna, þau sem unnt er, og þá með samstarfi viðkomandi sýslumannsembættis og þeirra aðila sem veita þjónustuna; ég nefni sem dæmi Fiskistofu, tollgæslu, Vinnueftirlitið, Matvælastofnun, Umhverfisstofnun, Skipulagsstofnun, Vinnumálastofnun, Samgöngustofu og þannig mætti lengi telja. Ég hef ekki listað þetta nægilega vel upp en þarna mættu líklega vera nokkur nöfn í viðbót. Þegar ég bjó í Vestmannaeyjum — ef ég leyfi mér að nefna sjálfan mig — tók maður stundum eftir því, og ég held að þetta hafi versnað, að í bænum voru kannski ekki ein eða tvær heldur jafnvel fleiri bifreiðar á götunum merktar þessum stofnunum. Var þá verið að ferðast á þeirra vegum yfir haf og land til að sinna kannski einu litlu erindi. Þetta kostaði kannski einn til tvo daga í ferðalög. Er ekki hægt að finna samlegðaráhrif í þessu og fela sýslumannsembættunum að vera framlenging ríkisvaldsins, eins og þau sannarlega eru, á fleiri sviðum en þeim sem nú eru undir hatti sýslumannsembættanna og spara ferðalög og kostnað, ferða- og dvalar- og aksturskostnað, sem af hlýst. Í mörgum tilvikum er ekki um að ræða mjög sérhæfð störf, gæti ég trúað. Þessi embætti gætu veitt alhliða þjónustu við almenning úti um allt land sem framlenging ríkisvalds á almennari og breiðari grundvelli en nú er.

Það er ekki bara dómsmálaráðuneytið sem þarf að vinna að þessu heldur öll ráðuneyti. Þau þurfa að sameinast um þetta og finna leiðir til að spara og í leiðinni að efla þessi embætti. Það þarf að skjóta styrkari stoðum undir sýslumannsembættin.

Örlítið varðandi löggæsluna, örstutt, bara það sem ég ekki náði að minnast á í gær, sérstaklega varðandi manneklu í lögreglunni. Lögreglan er fáliðuð og hefur verið mjög lengi. Hverjar eru afleiðingarnar? Það er forgangsraðað á annan hátt. Minni málum er ekki sinnt. Þau eru látin fara aftast í röðina. Ef það eru mörg útköll fara þeir í alvarlegri útköllin, þeir sleppa kannski innbrotum, mæta síðar í þau. Viljum við svoleiðis samfélag? Ég man þá tíð þegar lögreglan mætti ef tilkynnt var um innbrot, mætti á staðinn strax. Víða erlendis er það þannig að þeir mæta bara á mánudaginn kl. átta ef hringt er á föstudegi. Er það boðlegt fyrir almenning á Íslandi? Ég segi nei. Við verðum að efla löggæsluna. Þetta var eitt lítið dæmi. Aðrar afleiðingar þess að lögregla er fáliðuð er sú að fleiri ómenntaðir lögreglumenn eru að störfum, sérstaklega á sumrin þegar það eru sumarleyfi. Annað sem er alvarlegra er að það eru kannski fáir lögreglumenn, jafnvel einn, á mjög stóru svæði sem þeir eiga að sinna. Það er langt í aðstoð og þið getið rétt ímyndað ykkur hvaða óöryggi það er bæði fyrir lögregluna og íbúana þegar langt er í hjálp eða aðstoð. Það er kannski ekki alltaf hægt að kalla á þyrlu. Það tekur tíma fyrir hana að mæta á svæðið. Þetta er alvarlegt og varðar öryggi lögreglumanna. Annað sem ég ætlaði að minnast á er hálendislöggæsla. Lögreglan hefur verið að sinna henni eins og hún best getur en alls ekki eins og ég tel nauðsynleg. Þar er mjög mikill fjöldi ferðamanna yfir sumarið og það þarf að efla löggæslu uppi á hálendinu enn frekar en nú er.