148. löggjafarþing — 71. fundur,  8. júní 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[11:17]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Við ræðum fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar. Ég mun nú í afar stuttu máli víkja að þeim þáttum hennar sem snúa að velferðarnefnd.

Þess ber að geta að undir nefndina heyra þau málefnasvið sem hafa að geyma hvað stærstu útgjaldaliðina í íslenskum ríkisfjármálum Um er að ræða afar stóra málaflokka sem þarfnast mikillar umræðu og yfirferðar. Tímaskortur við þinglega meðferð áætlunar kann því að koma einna helst niður á velferðarnefnd. Er það miður í ljósi þess að um er að ræða fyrstu fjármálaáætlun nýrrar ríkisstjórnar sem stofnuð var með það að leiðarljósi að efla stórlega uppbyggingu innviða.

Hvað varðar málefni sjúkrahúsþjónustu eru þau markmið sem koma fram í kaflanum bæði góð og skýr og ber að fagna því, en því miður er ekki hægt að segja það sama um þær aðgerðir sem fyrirhugaðar eru. Ekki er skýrt með hvaða hætti þær aðgerðir sem koma fram munu koma til með að vinna að markmiðum kaflans. Almennt séð er mikill skortur á gagnsæi í umfjöllun fjármálaáætlunar um Landspítalann og sjúkrahúsþjónustu. Það er bæði skortur á tölulegum upplýsingum hvað varðar fjármögnun aðgerða og einnig hvað varðar markmið áætlunar. Sá skortur á upplýsingum á við um flestalla málaflokka. Það kom fram í máli gesta sem komu fyrir velferðarnefnd að mjög erfitt væri að lesa úr fjármálaáætlun hvaða upphæðir færu í hvaða verkefni innan málaflokksins.

Í svo stórum útgjaldalið er ámælisvert að ekki sé að finna frekari sundurliðun á útgjaldaliðum. Þannig er ekki hægt að greina hve mikill hluti kostnaðar er ætlaður til vinnu við byggingu nýs Landspítala né til annarra byggingarframkvæmda, t.d. byggingar legudeildar á Sjúkrahúsinu á Akureyri. Því er ekki hægt að greina hve mikið af auknu fjármagni er ætlað til þess að styrkja rekstur sjúkrahúsa. Eðlilegt væri að hægt væri að finna aðgreiningu á rekstrarkostnaði og stofnkostnaði. Einnig væri æskilegt að enn frekar væri hægt að greina rekstrarkostnað.

Þá tekur fjármálaáætlun ekki á þeim gríðarlega mönnunarvanda sem liggur fyrir í sjúkrahúsþjónustu. Núverandi staða er sú að of mikið álag er á því starfsfólki sem starfar á sjúkrahúsum og kom fram í máli gesta velferðarnefndar að hér á landi væri tvöfalt álag á lækna og hjúkrunarfólk væri vinnuálag borið saman við sambærilegar sjúkrastofnanir í Svíþjóð. Þá eru fram undan miklar kjaradeilur.

Að lokum varðandi málefnasvið sjúkrahúsþjónustu ber að taka fram að undir málefnasviðið heyra nokkrar stéttir sem eru að mestu leyti eða öllu leyti kvennastéttir. Lög um opinber fjármál gera kröfu um kynjaða fjárlagagerð og jafnrétti í fjármálaáætlun. Það hefði því verið til bóta að hafa kynjaða umfjöllun á málefnasviði sjúkrahúsþjónustu.

Ég verð einnig að víkja stuttlega að heilsugæslunum. Óljóst er hversu mikla fjármuni á að veita til að styrkja þjónustu heilsugæslunnar. Ljóst er að talsverð þörf er á fjármunum til að byggja upp þjónustuna. Fjármagn hefur skort til að hægt sé að sinna heimahjúkrun, til að hægt sé að efla hlutverk heilsugæslunnar sem fyrsta viðkomustaðar. Til að styrkja möguleika hennar á taka við fráflæði sjúkrahúsanna er nauðsynlegt að framlög til hennar verði aukin á næstu árum.

Eitt markmiðanna sem fellur undir heilsugæslu er að auka aðgengi sjúklinga að fjölbreyttri geðheilbrigðisþjónustu. Því markmiði ber að fagna. Því markmiði á að ná með því að fjölga geðheilsuteymum innan heilsugæslunnar, en í stað þess að sú mikilvæga þjónusta komi sem viðbót við það góða starf sem hefur átt sér stað hjá frjálsum félagasamtökum á að leggja þjónustu frjálsra félagasamtaka niður til að vega upp á móti. Það er erfitt að átta sig á því hvernig þær aðgerðir auka fjölbreytni þegar verið er að leggja niður úrræði sem mikil þörf er á, ef tekið er mark á notendum þjónustunnar sem á svo sannarlega að gera.

Í ljósi vaxandi geðheilbrigðisvanda á Íslandi er brýnt að úrræði sem hafa reynst fólki vel séu nýtt áfram þar til kemur í ljós að ekki er lengur þörf á þeim. Ný geðheilsuteymi gætu mögulega komið í stað þeirra úrræða sem nú er verið að leggja niður. Það var skoðun minni hluta nefndarinnar að bíða þar til reynsla af nýjum teymum leiðir í ljós að öruggt sé að leggja önnur úrræði niður.

Mig langar að víkja stuttlega að hjúkrunar- og dvalarrýmum sem er sá málaflokkur sem einna helst hefur þurft að gera átak í á undanförnum árum. Á bls. 331 kemur fram að 486 hjúkrunarrými séu í byggingu eða á framkvæmdaáætlun til ársins 2022, þar af 309 ný hjúkrunarrými. Afar mikilvægt er að vinnu við rýmin ljúki sem fyrst þar sem mikil þörf er á að tryggja öllum þeim pláss sem þurfa hjúkrunarrými.

Undanfarin ár hefur öryrkjum fjölgað hér á landi. Ein af aðgerðunum sem skilgreind er í áætluninni er að greina orsakir þess að öryrkjum fjölgar og finna leiðir til að bregðast við þeim. Afar mikilvægt er að sú greining fari fram og varpi ljósi á ástæður þess að öryrkjum í samfélaginu fjölgar. Læknavísindi nútímans tryggja fólki betri líkamlega heilsu en nokkurn tímann áður en þrátt fyrir það fjölgar öryrkjum talsvert. Ljóst er að nokkuð af þeirri aukningu má rekja til geðrænna vandamála. Afar mikilvægt er þegar orsakir fjölgunar örorku verða greindar að kannað verði ítarlega hver þáttur streitu og kulnunar sé í fjölgun öryrkja.

Málefnasvið fjölskyldumála er nokkuð fjölbreytt þar sem undir það heyrir töluverður fjöldi málaflokka. Meðal þeirra er fæðingarorlof. Eina markmiðið í málaflokknum er að draga úr röskun á tekjuinnkomu foreldra í fæðingarorlofi. Það er svo skilgreint sem mælikvarði á því markmiði að hækka hlutfall feðra miðað við mæður sem fullnýta sjálfstæðan rétt í fæðingarorlofi, einnig hlutfall foreldra sem fá hámarksgreiðslur í fæðingarorlofi. Eru þau markmið bæði mikilvæg og fagna ég þeim.

Þó eru fleiri þættir sem líta mætti til við tilhögun fæðingarorlofs og þar má í fyrsta lagi nefna lengingu fæðingarorlofs. Þá hefur ekki verið horft til þess að rétta hlut barna einstæðra foreldra. Það að börn einstæðra foreldra hafi takmarkaðri rétt til að eyða tíma heima með foreldrum sínum stríðir gegn hugmyndum um jafnræði og réttlæti.

Fyrsta fjármálaáætlun ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur veldur því miður vonbrigðum. Undanfarið hefur verið mikil umræða um að við upplifum nú áður óþekkta hagsæld. Því var lýst við stofnun ríkisstjórnarinnar seint á síðasta ári að hún myndi standa fyrir uppbyggingu innviða, sem var verkefni sem hafði lengi setið á hakanum. Það út af fyrir sig kann að vekja furðu þar sem stærsti þingflokkurinn sem á aðild að núverandi ríkisstjórn hefur átt aðild að öllum ríkisstjórnum sem hafa verið stofnaðar síðan 2013. Það mætti þannig velta því fyrir sér hvaða forsendur eru breyttar nú.

Sú fjármálaáætlun sem er til umræðu varpar ljósi á það að í raun eru forsendur lítið breyttar. Í nokkrum málaflokkum má merkja nokkra aukningu útgjalda frá síðustu fjármálaáætlun, sem ber að fagna, en heilt á litið er ekki að finna í áætluninni þá miklu innviðauppbyggingu sem lofað var af ríkisstjórninni við stofnun hennar.

Í áður óþekktu hagvaxtarskeiði felast tækifæri sem ekki eru nýtt í nýrri fjármálaáætlun en við ættum að nýta. Við höfum tækifæri til að veita fjármuni í raunverulegar forvarnir. Við getum tekið skref á borð við að stytta vinnuvikuna, unnið að því að auka hamingju fólks og lyfta þeim sem þurfa úr fátæktargildru, við getum afnumið skerðingar og gripið til skilvirkra aðgerða til að útrýma fátækt á Íslandi. Það er skynsamlegasta og besta forvarnastarfið og hvað best til þess fallið að auka hamingju og velsæld Íslendinga. Ekki er horft til þess í fjármálaáætlun. Það er miður.