148. löggjafarþing — 71. fundur,  8. júní 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[12:22]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Undir lok þessarar síðari umræðu um tillögu til þingsályktunar um fjármálaáætlun fyrir árin 2019–2023 langar mig til að byrja á að segja að mér finnst að umræðan að þessu sinni sé enn til vitnis um það að við erum að læra inn á framkvæmd breyttra laga og mér finnst að við höfum lært töluvert ef svo mætti segja hvort á annað, þingið og stjórnkerfið, eða Stjórnarráðið. Til grundvallar vinnu fjárlaganefndar lá ekki eingöngu þessi tillaga til þingsályktunar, heldur líka álit fjármálaráðs sem er þó nokkuð ítarlegt og ætla að leyfa mér að segja að hafi í fyrsta lagi að sjálfsögðu verið mjög gagnlegt fyrir alla umræðu, en ég get ekki sleppt því að segja að álit fjármálaráðs eru orðin dálítið annað skjal en ég hafði séð fyrir þegar við samþykktum lögin um opinber fjármál, þ.e. orðin miklu efnismeiri, dýpri. Maður hafði kannski í huga sínum gert ráð fyrir að sjá stutta greinargerð, ég skal ekki segja, maður hafði kannski ekki skýrar hugmyndir um það, kannski á bilinu 10–20 blaðsíður, en við höfum fengið miklu meiri vinnu frá fjármálaráði en ég hafði séð fyrir. Það hefur bara verið jákvætt, það er bara gagnlegt.

Það eru margar ábendingar frá fjármálaráði sem ég tek eftir að nefndin hefur verið að vinna með og að sjálfsögðu höfum við í fjármálaráðuneytinu sömuleiðis átt í samskiptum við nefndina um þau atriði. Ég leyfi mér að vísa í tiltölulega nýlega samantekt á efnisatriðum í álitsgerð fjármálaráðs um fjölmörg atriði sem við höfum deilt með nefndinni. Ég tel mikilvægt að við höldum þeim atriðum lifandi. Þar er um að ræða athugasemdir sem fjármálaráðuneytið mun svo sannarlega hafa til athugunar í vinnunni í framhaldinu, þ.e. við undirbúning næstu þingsályktunar, og gerð er grein fyrir því í því skjali sem ég er hér að vísa til.

Við getum tekið af handahófi almenna framsetningu áætlunarinnar. Ráðið bendir á að hún sé ítarlegri en áður og verklagið betra. Hins vegar þurfi að vanda samræmi milli texta og tölulegra upplýsinga í myndum og töflum. Við í ráðuneytinu tökum þeirri ábendingu þannig að við lofum því að halda áfram að bæta framsetningu komandi áætlana og í samræmi við það.

Aðeins á þessum nótum áfram, ég held að við ættum kannski að taka með okkur önnur atriði inn í áframhaldandi vinnu. Það er t.d. um vikmörk í áætlunargerðinni. Við vikum að því í þingsályktunartillögunni að mjög erfitt væri að vera með áætlun langt fram í tímann. Þetta sögðum við þegar fjármálastefnan var lögð fram, en við höfum líka nefnt þetta í tengslum við fjármálaáætlunina, að vera með áætlanir upp á kommu á fimmta ári í framtíðinni er auðvitað ekki mjög nákvæm vísindi. Það eru margar forsendur sem þurfa að steypast saman og þær eru allar dálítið á floti til að framkalla tölu upp á 0,1 af landsframleiðslu eða hvað það kann að vera.

Ég held að þarna sé eitt af atriðunum sem við þurfum að afgreiða, þ.e. eigum við að hafa meiri sveigjanleika í áætlunargerðinni, sérstaklega á síðasta hluta áætlunartímabilsins? Og þá þurfum við að leiða til lykta spurninguna um hvort gert er ráð fyrir slíkum sveigjanleika í lögunum eða ekki. Við höfum ekki viljað taka neina áhættu í því efni og við höfum túlkað lögin þröngt, en kannski höfum við túlkað þau of þröngt og ættum mögulega að byrja að vinna með þetta. Einnig er talað um sviðsmyndagreiningar og fleira. Ég hef ekki tíma til að fara yfir öll þau atriði. Þau hafa verið tekin saman í skjal, en við munum fylgja þeim eftir.

Ég ætla hins vegar að segja annað, það geri ég í tilefni af því að nefndin afgreiðir málið frá sér án breytinga á tölulegri framsetningu. Nefndin er hins vegar með fjölmargar ábendingar. Það að ekki séu gerðar breytingar á afkomumarkmiði, skuldamarkmiði eða öðru, þýðir ekki að vinna nefndarinnar hafi ekki áhrif vegna þess að allar þær ábendingar sem koma fram í meirihlutaálitinu (Forseti hringir.) verða teknar með í vinnunni í framhaldinu. Og það mun birtast í fjárlögum eftir atvikum og síðan í næstu fjármálaáætlun að þingið hafi kallað (Forseti hringir.) eftir áherslum á ákveðnum sviðum sem ég vísa hér til. Þannig er nefndin án þess að vera að breyta mjög verulega eða breyta yfir höfuð tölulegum markmiðum áætlunarinnar (Forseti hringir.) að hafa áhrif inn í framtíðina.

Ég vil þakka fyrir málefnalega umræðu.