148. löggjafarþing — 73. fundur,  8. júní 2018.

veiðigjald.

648. mál
[18:41]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Nú undir lok þessa þings varð það samkomulag í meiri hluta atvinnuveganefndar að leggja til breytingar á veiðigjaldi sem hefðu haft áhrif á endanlega álagningu veiðigjalds vegna fiskveiðiársins 2017–2018 og fram til næstu áramóta. Ekki verður fram hjá því horft að tillagan var mjög seint fram komin og þrátt fyrir að látið hafi verið reyna á afbrigði um að fá málið strax á dagskrá var ekki nægilegur stuðningur við það hér í þinginu. Þess vegna er það niðurstaðan við lok þessa þings að veiðigjöld verði áfram óbreytt. En það bíður okkar þá bara á haustinu að taka á þeirri stöðu sem frumvarpinu var ætlað að taka á og um leið að ákveða veiðigjöld til framtíðar. Með því er þetta þing að senda málið áfram inn á haustið.