148. löggjafarþing — 73. fundur,  8. júní 2018.

veiðigjald.

648. mál
[18:46]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (Flf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Eins og ég gat um í ræðu minni áðan lítum við svo á að þetta frumvarp sé niðurstaða af samkomulagi flokkanna hér á Alþingi og styðjum það á þeim grundvelli. Það er alveg rétt, sem hér hefur verið sagt, að með þessari ákvörðun er þessu máli í raun og veru varpað inn á haustið. Það gegnir furðu að ríkisstjórnin skyldi ætla sér að knýja þetta mál fram á elleftu stundu, eftir kosningar, rétt fyrir þinglok. Auðvitað er mikil reiði í samfélaginu. En ég leyfi mér að lýsa þeirri von að um þetta mál takist sátt á hausti komanda og við viljum leggja okkar af mörkum til að vinna að farsælli niðurstöðu.