148. löggjafarþing — 75. fundur,  11. júní 2018.

stefnumótandi byggðaáætlun 2018--2024.

480. mál
[12:22]
Horfa

Frsm. minni hluta um.- og samgn. (Karl Gauti Hjaltason) (Flf):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti minni hluta umhverfis- og samgöngunefndar með breytingartillögu við stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2018–2024, sem má finna á þskj. 1134.

Minni hluti umhverfis- og samgöngunefndar telur nauðsynlegt að hlutur skógræktar verði skrifaður inn í byggðaáætlun með meira afgerandi hætti en gert er ráð fyrir í tillögu meiri hlutans.

Minni hlutinn tekur þó skýrt fram að hann styður álit meiri hlutans að öðru leyti, nema þegar kemur að þætti skógræktarinnar í áætluninni.

Minni hlutinn telur að markmið í skógrækt þurfi að vera skýrari og leggur til að skógrækt verði stórefld og þannig verði lagður grunnur að því að skógar framtíðarinnar verði undirstaða að gjöfulli, umhverfisvænni og arðbærri atvinnugrein hér á landi.

Að auki telur minni hlutinn að skrifa þurfi sérstaka aðgerðaáætlun fyrir skógrækt inn í byggðaáætlunina til þess að ljóst sé til hvaða aðgerða þurfi að grípa til að ná markmiðunum, hverjir beri ábyrgð á verkefninu og hverjir séu samstarfsaðilar í því. Þetta er nauðsynlegt svo að unnt verði að hefja undirbúning að samstarfi viðkomandi aðila sem allra fyrst. Markmiðum verður ekki náð að mati minni hlutans nema a.m.k. 12 milljónum trjáa verði plantað árlega frá og með árinu 2023. Nauðsynlegt sé í þessu skyni að byggja upp á næstu fimm árum aðstöðu til ræktunar á trjám til gróðursetningar en nokkur ár tekur að ná því umfangi. Þess vegna er áríðandi að hefjast strax handa til þess að umræddu markmiði verði náð á tilsettum tíma.

Tillögur minni hlutans um aukna áherslu á skógrækt í byggðaáætlun falla vel að áliti meiri hluta fjárlaganefndar um tillögu til þingsályktunar um fjármálaáætlun þar sem segir meðal annars um málefnasviðið 17 Umhverfismál, með leyfi forseta:

„Gert er ráð fyrir stórauknum fjárframlögum til að uppfylla markmið málefnasviðsins. Hér koma glögglega fram áherslur ríkisstjórnarinnar í umhverfismálum og úrbætur á því sviði. Meiri hlutinn leggur áherslu á að forgangsraðað verði til skógræktarmála.“

Um síðustu aldamót, þegar lög um landshlutabundin skógræktarverkefni voru samþykkt, voru sett fram markmið í lögunum um að rækta skóg á 5% láglendis, um 215.500 hektara, fyrir árið 2040. Því markmiði verður ekki náð fyrr en árið 2130, eða eftir eitt hundrað og tólf ár, miðað við þann hraða sem nú er á þessum framkvæmdum. Nú eru 3,1 milljónir plantna gróðursettar árlega. Ef framkvæmdahraði yrði fjórfaldaður og árlegar gróðursetningar færu í um eða yfir 12 milljónir plantna næst framangreint markmið árið 2055, eða eftir 37 ár, sem er mun fyrirsjáanlegri framtíð en 112 árin sem ég nefndi.

Nýskógrækt með sjálfbærum skógarnytjum og endurheimt birkiskóga fellur vel að byggðaáætlun að mati minni hlutans. Skógræktarátak á síðustu áratugum 20. aldar er þegar farið að skila tekjum og efni til iðnaðar og húsagerðar sem sparar þannig gjaldeyri fyrir þjóðarbúið. Allt það sem gert er í skógrækt skilar sér margfalt til baka næstu ár og áratugi.

Herra forseti. Íbúar þessa lands hafa um aldir búið við atvinnuvegi sem hafa sveiflast eftir árferði. Nú um stundir byggist velmegun í landinu á fáheyrðum vexti ferðaþjónustu sem enginn veit hvenær lægð kemur í. Skógar framtíðarinnar eru auðlind sem er ekki tiltölulega næm fyrir sveiflum í umhverfinu og þannig geta skógarnir lagt grunn til langrar framtíðar að traustum atvinnuvegi vítt og breitt um landið. Skógarnir taka að skapa atvinnu og arð um leið og grisjun þeirra hefst. Um umhverfisþátt skógræktar þarf ekki að fjölyrða hér, bæði hvað varðar kolefnisbindingu skóganna, sem og þátt skóga í að hefta frekari uppblástur í nágrenni sínu svo ekki sé minnst á útivistargildi þeirra og veðurfarsbreytingar til batnaðar á nálægum landsvæðum. Það er auðvitað ekki boðlegt þjóð sem hefur það á samvisku sinni að hafa afklætt landið þeim skógi sem hér var við landnám að yppa öxlum þegar kemur að því að fá tækifæri til að endurheimta brotabrot að þeim skógum sem klæddu landið við landnám.

Skógrækt til framtíðar styrkir dreifbýli og atvinnusköpun sérstaklega og skilar þjóðarbúinu þeim mun hærri skatttekjum eftir því sem lengra líður. Einnig eykur skógrækt verðmæti bújarða og hækkar lánshæfismat bænda. Skógrækt gefur aukna möguleika á uppbyggingu nýrra atvinnuvega í dreifbýli þar sem ýmis atvinnustarfsemi vex og dafnar þegar og um leið og hráefni fer að berast úr skógunum. Hér er ónefnt að skógur bætir búsetu- og ræktunarskilyrði fyrir akurrækt og húsdýr fá skjól í skógum og við skjólbelti.

Samhliða því verkefni að fjórfalda nýskógrækt á Íslandi þarf að vinna landshluta- og landsáætlun í skógrækt í samvinnu ríkis og sveitarfélaga.

Að framansögðu virtu leggur minni hlutinn til að tillagan verði samþykkt með eftirfarandi breytingu sem tilgreind er í þingskjali:

1. Að sett verði inn ný markmið í II. kafla um stóreflingu skógræktar.

2. Að sett verður inn ný aðgerð í VI. kafla um atvinnuuppbyggingu með skógrækt þar sem mælt er um aðgerðir svo planta megi út 12 milljónum trjáa á ári frá og með árinu 2023 svo markmiðum tillögunnar verði náð.

Árangur af verkefninu verði mældur með fjölda plantaðra trjáa og fjölda skógræktarverkefna á tímabilinu, ábyrgð á aðgerðum verði í höndum Umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, framkvæmdaraðili verði Skógræktin og dæmi um samstarfsaðila eru landeigendur, sveitarfélög og landshlutaverkefni í skógrækt. Þá verði aðgerðin fjármögnuð af sviði umhverfis- og auðlindaráðuneytis.

Undir álit minni hlutans skrifar sá sem hér talar.